17.07.1914
Neðri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

61. mál, eignarnámsheimild fyrir Ytri -Búðir o. fl. jarðir

Flutningsm. (Skúli Thoroddsen):

Eins og háttv. þingdeild mun kunnugt, er lögð fram á lestrarsalinn málaleitun frá íbúum í Hólshreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu, sem fer í sömu átt, sem frv. þetta.

Ástæðan er sú, að í Bolungarvíkurverzlunarstað, sem er ein af helztu verstöðvum landsins, hvort er litið er á útveginn þar, eða á fiskisældina eða á fólksfjölda er þar býr og þangað sækir, hagar svo til, að lóðin er öll eign einstakra manna, þ. e. Ásgeirs verzlunar á Ísafirði, sem á alt löggilta verzlunarsvæðið þar m. m. og tekur hálfa vertolla af »Mölunum«, sem svo eru nefndar, móts við Vatnsfjarðarklerkinn, er hinn helmingurinn rennur til.

Samkvæmt skýrslum, er mér hafa borist frá hreppsnefndinni í Bolungarvík, eru nú — ár frá ári — farin að verða æ meiri og meiri brögð að því, að mjög miklir örðugleikar eru á því, að fá sér útmældar lóðir, sérstaklega við sjóinn, þar sem verbúðirnar hafa staðið frá gamalli tíð.

Það hefir — að því er hreppsnefndinni segist frá — mætt all-mikilli mótspyrnu frá eigandans hálfu, að láta menn fá lóðir, þar sem hægast er, en í þess stað hefir mönnum verið vísað á lóðir, sem liggja ofar, þ. e. fjær sjónum, og þar sem örðugra er um aðdrætti, og atvinnurekstur allur að mun óhagkvæmari, og þá eigi hvað sízt þeim, sem sjávarútveg stunda.

Nú er og á það að líta, að farið er nýskeð að byggja þar »brimbrjót«, sem landssjóður hefir sem kunnugt er kostað töluverðu fé til, og sem lendingarsjóður Bolungarvíkur er allur látinn ganga til, því að svo mjög er héraðsbúum það áhugamál, að þeir hafa jafn vel eigi horft i, að leggja á sig all tilfinnanleg útgjöld, þ. e. 2 kr. í hlut, til þess að koma fyrirtækinu sem fyrst eitthvað áleiðis, þar sem engum fær blandast hugur um það, til hve ómetanlega gagns það má verða fyrir alla, sem hlut eiga að máli.

En til »brimbrjóts« þessa hefir eigandi landsins enn ekkert fé viljað fram leggja, en á hinn bóginn gert sér alt far um að svæla undir sig lóðirnar er þar liggja næst, og leiðir af því, að almenningur hefir þá »brimbrjótsins« að mun minni notin en ella.

Það er og síður en ekki þægilegt, eða fýsilegt, fyrir almenning, að ráðast í arðsöm fyrirtæki, þegar það er áskilið af landeiganda, að ekki megi stunda aðra atvinnu á lóðinni en sjósókn, megi t. d. hvorki reka þar iðnað né verzlun, og varði jafnvel missi lóðarréttarins, ef út af er brugðið.

Þá er það og aðgætandi, að þörfin á reglulegum götum um kauptúnið er þegar orðin mjög tilfinnanleg, en í því efni verður ekkert gert, meðan alt landið er í höndum einstaks manns.

Sama er og að segja um girðingar, er setja þyrfti, o. fl. o. fl. Allar framkvæmdir heptast, eða verða örðugri, og nær ókleifar, meðan svo stendur, sem nú er, auk þess er mönnum eru og fyrirmunuð svæði, sem þeir þurfa nauðsynlega til fiskverkunar og fleira.

Annars má segja, að á því velti ekki einungis framtíð Bolungarvíkur, að á þessu fáist breyting, heldur og framtíð alls héraðsins umhverfis Ísafjarðardjúpið.

Jafnvel alt landið nýtur og góðs af því, sem er Bolungarvík í hag, því að auk þess er þangað sækja menn úr mörgum öðrum héruðum landsins, bæði úr Barðastrandar-, Dala-, Húnavatns-, og jafnvel úr Skagafjarðarsýslu, auk manna úr Ísafjarðarkaupstað og Vestur-Ísafjarðarsýslu, þá nema toll- og útflutningsgjöldin þaðan sízt litlu, og verða æ því meiri og meiri, er hagur héraðsins blómgast meira.

Að lokum skal eg geta þess, að eg veit það vel, að það er einatt leiðinlegt að þurfa að taka eignir manna eignarnámi, enda ekki leyfilegt, samkvæmt stjórnarakránni, nema fult gjald komi fyrir. Hér veltur alt á því, að matið sé svo sanngjarnt, sem frekast er unt, — litið á alt sem í eigninni felst, og sá, er eignarnáminu er beittur, sízt látinn bíða fjárhagslegan hnekki, og þetta er það þá, sem dómkvöddu matsmennirnir verða þá og að sjálfsögðu, að hafa sem ríkast í huga.

Að svo mæltu vona eg, að deildin taki málinu vel, og lofi því helzt að ganga nefndarlaust gegnum deildina.