20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

74. mál, land til stækkunar á kirkjugarðinum í Reykjavík

Flutningsm. (Jón Magnússon):

Þetta frv. er svo til komið, að á safnaðarfundi, sem haldinn var hér í Rvík 23. f. m., var samþykt svo hljóðandi tillaga:

»Þareð núverandi kirkjugarður dómkirkjusafnaðarins er að verða of lítill, skorar safnaðarfundurinn á landsstjórnina að sjá söfnuðinum sem allra fyrst fyrir nýjum grafreit, eða stækkun núverandi kirkjugarðs«.

Þessi málaleitun barst svo seint til stjórnarinnar, að hún gat ekki komið fram með frv. Þingmenn kjördæmisins hafa því tekið að sér að flytja frv. Á fjárlögunum 1903 vóru veittar 6800 kr. til þess að stækka kirkjugarðinn. En nú er svo komið, að sá hluti, sem þá var bætt við, er að mestu leyti útgrafinn. Að svo ber bráðan að nú, stafar af því, að manndauði hér í bæ hefir verið svo mikill á seinustu árum, að slíks eru ekki dæmi, jafnvel ekki þegar landfarsóttir hafa gengið. Umsjónarm. kirkjugarðsins býst við, að garðurinn verði útgrafinn í september eða októbermánuði í haust.

Samkv. lögum 8. nóv. 1901, 1. gr. hvílir sú skylda á landssjóði, að sjá Reykjavíkursöfnuði fyrir grafreitum, enda er það viðurkent af þinginu með fjárveitingunni 1903.

Að hér er farið fram á eignarnám, stafar af því, að sú eina stækkun, sem hugsanleg er á kirkjugarðinum, er að fá viðbót af Nýjatúni, vestur eftir. Það hefir verið leitað samninga við eigendur Nýjatúna, en ekki hefir getað orðið af samkomulagi. Það stafar ekki af því, að ósanngjarnt verð hafi verið heimtað, heldur af hinu, að eigendurnir eru margir, og þeir hafa ekki getað komið sér saman sín á milli, enda einn þeirra ekki hér á landi sem stendur. Eina ráðið, sem er fyrir hendi, er því að fá heimild hjá þinginu til eignarnáms.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Hér er um beina skyldu að ræða, sem verður að uppfylla nú. En vegna þess að veitingu þarf í fjáraukalögum, þá leyfi eg mér að stinga upp á, að 5 manna nefnd verði kosin í málið.