20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

28. mál, fækkun sýslumannsembæta

Guðm. Eggerz:

Eg ætla fyrst að leyfa mér að minnast á aðaltillöguna frá hv. 1. þm. Hún. (G. H.). Það hefir komið í ljós, að hann hefir ekki hugsað sér aðra breytingu, en að sameina Stranda- og Dalasýslu, og í öðru lagi Árness- og Rangárvallasýslu. Eg er nú þeirrar skoðunar, að þetta mætti ef til vill gjöra, og að þessar samsteypusýslur yrði ekki stærri en sumar hinna. En eg hygg, að sparnaðurinn yrði lítill, svo að ekki sé rétt að gjöra þetta móti vilja hlutaðeigandi héraða, enda eru Árness- og Rangárvallarsýslur eimitt þéttbygðustu héruðin. Eg lít því svo á, að þetta sé veigalítil till., en það verður ekki sagt um brt. þeirra hv. 1. þm. Árn. (S. S.) og 2. þm. N.-Múl. (J. J.) því þar er þýðingarmiklu atriði hreyft, aðskilnaði umboðs- og dómsvaldsins.

Eg hefi orðið þess var, að margir halda, að lögfræðingar — sérstaklega sýslumenn — sé aðskilnaðinum mótfallnir. En eg ætla, að hver lögfræðingur muni kannast við, að ákjósanlegast væri, að greina umboðsvaldið frá dómsvaldinu. Kunnugt er og má benda á, að þessi skoðun ríkir í öðrum menningarlöndum. Það má vera öllum augljóst, að dómarastéttin í landi hverju á að vera, eftir því sem unt er, óháð umboðsvaldinu, en eins og kunnugt er, þá eru aðalstörf dómaranna hér á landi umboðsstarf, og þar af leiðir, að þeir eru í þessum störfum ekki óháðir stjórninni.

Þess vegna álít eg fulla ástæðu til að athuga þetta, en hins vegar er það svo mikið og stórt mál, að eg get aðeins drepið stuttlega á einstöku aðalatriði.

Eg vil þegar benda á, að svo umsvifamikið er málið, að varla má ætlast til meira af stjórninni, en að hún verði fyrir næsta þing búin að átta sig á því, hvaða leið ætti að fara í rannsókninni, því að þar er um tvent að velja. Í fyrsta lagi að skipa milliþinganefnd, og í öðru lagi að veita stjórninni sérstaklega fé til rannsóknarinnar. —

Að öðru leyti skal tekið fram, að eg hefi orðið þess var, að þeir sem í sjálfu sér vilja þenna skilnað, láta það oftast fylgja með, að þeir vilji það því aðeins að það fyrirkomulag verði ekki dýrara en það sem nú er, eða jafnvel ódýrara, og svo halda margir að verði.

Þó að eg hafi nú ekki myndað mér ákveðna skoðun um kostnaðinn við hið nýja fyrirkomulag, þá held eg, að eg þori að fullyrða það, að það nái ekki nokkurri átt, að þetta breytta fyrirkomulag yrði ódýrara, en það sem nú er. En þar með er ekki sagt, að endilega eigi að hætta við það. Það kemur undir því, hve mikið menn vilja leggja upp úr því, að fá dómsvaldið skilið frá umboðsvaldinu. Eg held að enginn fari fram á það, að hafa dómara færri en 4. fjórðungsdómara, og er þá fyrst að athuga, hvaða mál þeim væri ætlað að fást við. Það mundu verða sakamál, einkamál, fógetagjörðir, og svo, að eg hygg, skifti á búum, þótt sumir vilji, að þeim sé ætlaður staður annarsstaðar.

Þó að eg nefni 4 dómarar, þá vil eg biðja hv. deild, að líta ekki svo á, sem eg persónulega sé sannfærður um, að oss nægi fjórðungsdómararnir. Eg hefi bent á 4 dómara og ekki fleiri fyrir þá sök, að þegar þetta mál hefir komið til umræðu í ræðum og ritum, munu allir á einu máli um það, að ekki geti þeir færri verið. Og eg vil að það sjáist á ræðu minni, að mér sé umhugað um, að skýra hlutdrægnilaust frá málavöxtum og gera ekki um of úr erfiðleikunum við breytta fyrirkomulagið.

Svo eg víki aftur að fjórðungsdómurunum þá yrði mönnum — það liggur í augum uppi — töluvert erfiðarar og dýrara en nú að leita réttar síns, því að dómararnir mundu eiga setu í Reykjavík, Stykkishólmi, Akureyri og Seyðisfirði.

Í fljótu bragði eru það tveir örðugleikar, sem eg þegar sé, örðugleikar sem snerta fógetagerðir og botnvörpungabrot. Mönnum er oftast áríðandi, að því er fógetagjörðir snertir, að fá þær framkvæmdar með stuttum fyrirvara. Það getur oft oltið á mörg þús. kr. fyrir gerðarbeiðanda. Sama er að segja um botnvörpungabrot. Meðferð þeirra mála má ekki bíða.

Eg hefi bent á þetta til athugunar, af því mér datt það í hug í svipinn.

Svo eg víki að kostnaðaráætluninni, dómurunum viðvíkjandi, skal tekið fram, að eg geri ráð fyrir, að þeir fái í laun kr. 5.000, eða allir fjórir kr. 20.000, og eg hugsa, að ekki fari minna í ferðakostnað fyrir hvern en 2 þús. kr. Mundu þá þessir fjórðungsdómarar kosta landið kr. 28 þús., en föstu launin allra sýslumanna og bæjarfógeta landsins nema um 62. þús. kr.

Eg hefi talið nauðsynlegt að launa dómarana með 5. þús. kr. Þeir verða að vera öllum með öllu óháðir fjármunalega, og sældarstöður verða þetta ekki að minni skoðun, því að dómararnir hljóta að verða mjög oft á ferðalagi.

Áður en eg sný máli mínu frá þessu fyrsta atriði, dómurunum, vil eg benda á, að eftir breytta fyrirkomulaginu mundu þeir ekki hafa með höndum annað en dómsmál í þeirri merkingu, sem eg áður hefi talið upp, en þar af leiðir aftur að sjálfsögðu, að þeir mundu verða færari dómarar en þeir, er aðeins hafa dómarastörfin sem aukastarf. Þetta væri auðvitað kostur, og hann mikill, við breytta fyrirkomulagið.

Eins og kunnugt er, þá eru umboðsstörfin aðalstörf sýslumannanna. Þó vil eg taka fram, að bæði á Akureyri og í Reykjavík, hljóta dómarastörfin að vera umfangsmikil, og auðvitað getur það einnig komið fyrir í öllum héruðum landsins, að sýslumenn tefjist nokkuð við dómarastörf, en þó þori eg að fullyrða, að þegar dómarastörfin hafa verið tekin af sýslumönnunum, hafi aðeins aukastörfum verið létt af þeim.

Eg segi þetta ekki af því, að eg sé hlyntur núverandi fyrirkomulagi, en eg ætla mér ekki að fara með annað en það sem rétt er, og eg vona að háttv. deild verði mér samdóma um það, að dómarastörfin eru ekki nema aukastörf.

Þá er eftir að gjöra sér grein fyrir því, hvernig fara eigi með umboðsstörfin. En fyrst verður þá að líta á, hver þau eru. Það er ekki tími til að telja þau öll upp, en skifta má þeim í þrjá aðalflokka.

1. Gjaldheimta.

2. Héraðsmál og

3. flokkinn vil eg leyfa mér að nefna ruslakistu.

Fyrst skal eg víkja nokkrum orðum að gjaldheimtunni.

Í sjálfu sér sýnist það ekki vera miklum vandkvæðum bundið að koma henni fyrir. Gjöldin, sem á að heimta, eru aðallega tollar (vörutollur o. fl.), og útflutningsgjald.

Innheimtulaunin eru nú í stærstu sýslunum hérumbil 1900 kr. Eg geri ráð fyrir, að enginn maður fengist til að taka þessa innheimtu að sér fyrir minna en 1500 kr., og eru þá sparaðar 400 kr. frá því sem nú er. Ef þessi gjaldheimta yrði fengin í hendur einum manni, yrði hann að sjálfsögðu að setja tryggingu á líkan hátt og vér sýslumenn verðum nú að gera, og sú trygging yrði alls ekki minni en 5 þús. kr.

En nú yrði þessi maður líka að fá sér hjálp við innheimtuna því nær á hverjum firði, og yrði því innheimtan talsvert dýrari heldur en sýslumönnum verður hún, því þeim eru hreppstjórar oftast hjálplegir, án þess að taka einn eyri fyrir það sérstaklega. Fyrir þessa hjálp er varla of mikið í lagt, þótt áætlað sé, að þeir yrði að borga fyrir hana 300 kr. á ári. Og þá eru ekki eftir nema 1200 kr. handa þeim sjálfum.

Manntalsbókargjöldin yrði ekki vandræði að innheimta, það gæti hreppstjórarnir gert — en þá yrði að auka laun þeirra í hverjum hreppi. Því að þau eru nú, þegar tekið er tillit til, hve hreppstjórar eru hlaðnir störfum, svo lúsarleg, að undrun sætir, að hæfir menn skuli fást í þá stöðu.

Þá er margt annað, sem mér er ekki ljóst, hvernig ætti að fá gert, sem sýslumenn hafa enn með höndum. T. d. skal eg nefna veðbókarvottorð. Einhver verður þó að gefa þau út. Hver á að sjá um þinglýsingar o. fl. o. fl. Ef þessu yrði skift milli margra, þá mundi það gera mikinn glundroða. Einhver þyrfti sömuleiðis að innheimta afgreiðslu- og vitagjald, gefa út leyfisbréf o. fl., en eg fík að því seinna, þegar eg kem að ruslakistunni.

Þá er að líta á það að gjaldheimtan yrði að minsta kosti ekki tryggari, þegar búið væri að taka hana af sýslumönnum og fá hana í hendur mörgum, og skifta henni á milli margra. Mér er sagt, að af landsfé, sem sýslumenn hafa innheimt, svo tugum milljóna skiftir síðan 1984, þegar sýslumannaembættin vóru stofnuð, hafi ekki tapast annað en það, sem tapaðist hjá Fensmark sýslumanni hér um árið, og má það heita mjög lítið, og eg verð að segja, að verði það ekki meira næstu 40 ár, þá hafa menn ekki ástæðu til að vera óánægðir.

Þá kem eg að öðrum kaflanum, sem eru héraðsmálin.

Sýslumenn eru nú oddvitar sýslunefndanna. Þótt þetta sé ef til vill ekki mikil vinna fyrir þá, taka þó öll þessi störf nokkurn tíma. Safnast þegar saman kemur. Það er engum vandkvæðum bundið að losa sýslumennina við oddvitastörf sýslunefndar. En ef sýslumannaembættin falla úr sögunni, verður bæði að breyta fátækralöggjöfinni — þeir hafa þar á meðal annars úrskurðarvald — og sveitarstjórnarlögunum. Þetta þarf auðvitað ekki að hindra aðskilnað inn frá dómsvaldinu. Eg bendi einungis á þetta til þess að gera mönnum ljóst að hér er yfirleitt um umfangsmikið mál að ræða.

Þá kem ég loks að ruslakistunni.

Það má heita svo, að nálega öll lög leggi einhver störf á sýslumennina. Eg var að reikna þessi störf saman í morgun, en vitanlega hefi eg slept mörgum úr. —

Fyrst skal eg nefna landshagsskýrslurnar, sem sýslumenn senda stjórnarráðinu. Þær eru eitthvað að 30, og sumar þeirra er áríðandi, að sé komnar til stjórnarráðsins á réttum tíma.

Það vá segja, að það mætti haga því svo, að hreppstjórarnir sendi stjórnarráðinu þær beint. Eg hygg, að svo gæti farið, að stjórnarráðinu fyndist erfitt að eiga að heimta þær inn hjá öllum hreppstjórum á landinu, þeir eru ekki svo fáir, þegar milliliðurinn — sýslumennirnir — væri farnir.

Þá er næst að geta um, að einhver þarf að annast um skrásetningu og mælingu skipa. Ef það er gert eins og lögin nú ákveða, þá er það mikil vinna. Mér hefir talist svo til, að þegar skip er skrásett að fullu, hafi málsskjölin farið 48 ferðir á milli ýmsra skrifstofa.

Þá þarf einhver að halda afsals og veðmálabækurnar og gefa veðbókarvottorð, eins og sýslumennirnir gera nú. Ef til vill hreppstjórarnir gert þetta, en samt hygg eg, að einhverjum þætti örðugra að sækja þetta til þeirra í hvern hrepp í stað eins og í sýslunni.

Einhver þyrfti og að útnefna virðingarmenn, hreppstjóra, yfirsetukonur, sáttasemjara o. fl. Ef þessu eða öðru yrði bætt við stjórnarráðið, þá þyrfti að auka við skrifstofufé þess.

Einhver þyrfti að hafa umsjón með ómyndugra fé, og semja þær skýrslur.

Einhver verður að halda firmaskrár.

Og einhver verður að innheimt vátryggingarfé sjómanna.

Það, sem eg á örðugast með að koma fyrir mig, er það, hvaða leið á að velja til þess, að umboðsstörfin fari ekki í meiri glundroða en áður, þegar þau eru tekin af sýslumönnum. Það mál er enn mjög lítið hugsað frá minni hlið. Ef til vill mætti setja upp skrifstofu líkt og amtmennirnir höfðu áður, eða þá setja á stofn nýja skrifstofu í stjórnarráðinu.

Enn er eitt, sem mér hefir dottið í hug í sambandi við þetta mál, og það er, að ef ætlast væri til þess að hreppstjórar tæki að sér þessi störf, þá þyrfti þeir nauðsynlega að fá einhverja þekkingu í lögum. Mér er kunnugt, að í líku augnamiði og þessu eru skólar settir á stofn í Svíþjóð, og eitthvað líkt í Frakklandi, þar sem menn læra í 2 ár. Af þessu leiðir auðvitað, að það þyrfti að auka laun hreppstjóranna, því að störfin yrði svo margbrotin.

Eg hefi nú tekið fram þá agnúa, sem eg sé á því, að leggja niður sýslumannaembættin, en það er ekki fyrir þá sök, að eg sé mótfallin aðskilnaði dómsvaldsins og umboðsvaldsins. Eins og eg hefi drepið á, tel eg jafnnauðsynlegt, bæði fyrir almenning og sýslumannastéttina, að þetta stórmál verði tekið til ítarlegrar íhugunar, og embættin niðurlögð, ef önnur haganlegri leið finst.

Umræðunni var enn frestað, og tók forseti málið út af dagskrá.