25.07.1914
Neðri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

81. mál, skoðun á útfluttri ull

Björn Hallsson; Eg bað um orðið af því, að eg hefi, eins og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), skift mér dálítið af þessu máli á þinginu, eða þó öllu heldur utan þingsins. Vér flutningsmenn flytjum málið að nokkru leyti fyrir Bændaflokkinn.

Á þingmálafundi, sem við þingmenn N.-Múl. héldum þar í vetur, kom í ljós eindregin ósk kjósenda í þessu efni, þannig, að skorað var á okkur, sem þá vórum í kjöri, að flytja á þessu þingi frumvarp, þess efnis, að lögbjóða mat á ull. Mönnum var það ljóst, að eitthvað verulegt þyrfti að gera til þess að vanda ullarverkunina á líkan hátt og átt hefir sér stað með fiskinn. En um hitt höfðu menn ekki myndað sér fasta skoðun, hvernig matinu yrði haganlegast fyrir komið. Um það vóru skiftar skoðanir. — Eg hreyfði svo málinu í Bændaflokknum, og var það rætt þar, og var Sigurgeir Einarsson þar viðstaddur eftir ósk okkar til samtals og upplýsinga um málið. Niðurstaðan varð sú, að vér vórum kosnir í nefnd, — sem flytjum nú þessa þingsályktunartillögu og einn maður að auk, sem sæti á í efri deild, til þess að athuga málið. Álit vort er nú komið hér fram á þskj. 167, og er þingsályktunartillagan, með athugasemdum, eins og vér höfum hugsað oss að slíku máli yrði bezt fyrir komið, en fer ekki fram á það, að þetta þing semji nú þegar reglulegt ullarmat. Oss nefndarmönnum fanst enn ekki vera komin nógu föst hugsun í málið og að almenningur mundi hafa gott af því, að kynnast því og ræða á milli þinga. Hins vegar þótti oss réttara, að málið gengi fram á þessu þingi með þeim undirbúningi, að menn geti tekið afstöðu til þess, áður en næsta þing kemur saman, og verði það þá að lögum. Mér virðist það líka betra, ef hægt væri að vanda svo til laganna, að ekki þyrfti að fara að breyta þeim þegar á næsta þingi, eins og er ofarlega á baugi með ýms lög nú. Eg skal játa það, að með þessu er málinu enn ekki komið í það horf, sem óskað var eftir fyrir austan, því að þar vildu menn helzt hafa lögin samþykt þegar frá þessu þingi. Þetta er ekki af því, að ull sé verr verkuð þar en annarsstaðar, heldur má segja þvert á móti, að Austfirsk ull sé einmitt í allmiklu áliti. En misjöfn er hún samt sem áður, og menn finna til þess, að ýmsu er ábótavant í þessu efni. Verzlunarsamkepnin kemur því til leiðar, að það kemur ekki greinilega í ljós, hve miklu meira virði góð ull er, en hin, sem illa er verkuð. Verðið kemur oft og einatt meira undir því, hver á mesta ull, þannig, að maður sem á mikla ull, en vonda, fær sama verð fyrir hana einsog fátæklingurinn, sem hefir vandað lagðinn sinn eftir föngum. Þetta hefir bæði oss flutningsmönnum þessarar tillögu, og mörgum öðrum þótt alveg ófært, og álitum vér að hér þurfi að komast fast skipulag á, og sameiginlegt merki fyrir land alt, á ull sem er í hverjum flokki fyrir sig, en svo hefir auðvitað hver útflutningsstaður undirmerki. Eg sé ekki betur, en að þetta sé heppilegasta leiðin og kostnaðurinn virðist ekki svo tilfinnanlegur, að ástæða sé til að fælast hann, svo mikilla bóta sem af þessu ætti að mega vænta.