25.07.1914
Neðri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (1131)

81. mál, skoðun á útfluttri ull

Sigurður Gunnarsson:

Eg er fyllilega samþykkur þessari þingsályktunartillögu. Hún er eðlilegt áframhald af þeim tilraunum, sem um langan tíma hafa verið gerðar til að bæta markað fyrir þessa vöru, sérstaklega af hálfu kaupfélaga fyrir norðan, og eins af hálfu alþingis 1909, er það kostaði erindreka til að kynna sér helztu ullarmarkaði fyrir íslenzka ull, og til að komast eftir því, hvernig kaupendur íslenzku ullarinnar vildi helzt hafa ullina verkaða. Við kostnaðinn er eg ekki svo hræddur, því að eg tel algerlega víst, að hann margborgi sig, ef ullarmatið, einsog gera má að sjálfsögðu ráð fyrir, hefir bætta verkun ullar í för með sér.

Ef ein miljón punda af ull er flutt út árlega, þá er auðsætt, að ekki þarf mikla verðhækkun á hverju pundi til þess, að það verði allálitleg upphæð, og allur kostnaður við matið margborgi sig.

Fleira hafði eg ekki að taka fram, eg stóð upp aðeins til þess að láta hv. flutningsmenn tillögunnar og hv. deildarmenn heyra þegar, hvoru megin eg væri í þessu máli.