07.08.1914
Neðri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

70. mál, afnám eftirlauna

Jóhann Eyjólfsson:

Eg get kannast við, að eg er að miklu leyti á sama máli og hv. 1. þm. Árn. (S. S.), eg álít sem sé nefndarskipun í þetta mál með öllu óþarfa, en eg tel líka óþarft að gera þá kröfu til stjórnarinnar, að hún rannsaki þetta mál. Eg hefi alls ekki heyrt þær raddir þjóðarinnar, sem hér er svo mikið talað um, að hún krefjist þess, að launaspursmálið sé rannsakað. Mér er ekki kunnugt um, að alþýða manna krefjist, að laun embættismanna sé rýrð, og alls ekki heldur, að þau sé hækkuð.

Hv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) sagði, að þetta mál hefði verið eitt af þeim málum, sem sett hefði verið á stefnuskrá Sjálfstæðismanna, og getur það verið satt. En eg hygg, að einstakir menn hafi samið þá stefnuskrá, en ekki þjóðin í heild sinni.

Það er vitanlega satt, að margar raddir hafa heyrzt um það að afnema eftirlaunin, en á bak við þær raddir mun liggja, að launin standi kyrr eftir sem áður.

Eg hygg, að ef þeir tveir kostir væri fyrir hendi, fyrst það, að alt launafyrirkomulagið væri með kyrrum kjörum og hinsvegar það, að eftirlaunin væri afnumin, en föstu launin jafnframt hækkuð, þá mundi þjóðin kjósa fyrri kostinn.

Eg er einn af þeim mönnum, sem ekki vilja gera neina breytingu á því launafyrirkomulagi sem er. Eg vil ekki afnema eftirlaunin. Það er fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að eg vil ekki þau skifti, að eftirlaunin verði afnumin og föstu launin hækkuð að sama skapi. Eg álít sem sé, að það geti ekki verið sanngjarnt að kippa eftirlaununum í burtu, án þess að nokkuð komi í staðinn.

Önnur ástæðan til þess, að eg vil ekki afnema eftirlaun — og það er aðalástæðan — er sú, að eg er hræddur um, að margur embættismaðurinn, jafnvel þótt hann hefði haft góð laun, væri illa staddur á elliárunum, og ætti þá ekki lífeyri fyrir sig og sína. Og þá er eg hræddur um, að margur mundi verða svo brjóstgóður, að hann gæti ekki fengið af sér að fleygja embættismanninum út á klakann. Honum mundi margt verða talið til gildis, eina og má í langflestum tilfellum, og þá gæti farið svo, að hann fengi eftirlaun, ekki lægri en þó að þau væri lögboðin. Þetta mundi ekki verða einsdæmi, heldur jafnvel að ofmikilli reglu, því að flestum má telja margt til gildis þegar svo ber undir. Eins er hætt við, að landssjóðsstyrkur til uppgjafaembættismanna yrði oft gerður að flokksmáli og yrði að reglulegum bitlingi — og það er það versta.

Nei, eg álít ekki, að mikið græðist á því að afnema eftirlaunin. Eg hygg betra að láta alt sitja kyrt eina og það er. Meðan kröfur þjóðarinnar í þessu máli láta ekki meira á sér bera, hygg eg bezt að hreyfa því ekki, og að hvorki verði kosin nefnd til að íhuga það, né að stjórninni verði falið að gera neitt í því.