11.08.1914
Neðri deild: 41. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

121. mál, uppburður sérmála Íslands

Jón Jónsson:

Eg hélt, að háttv. skrifari nefndarinnar (E. A.) mundi taka til máls á undan mér, og var eg að bíða eftir því. En úr því, að hann kýs að bíða, þá er mér sama þó að eg taki þegar til máls.

Eins og menn sjá, hefi eg leyft mér að bera fram br.till. við tillögu meiri hluta nefndarinnar á þskj. 438. Eg hefi leyft mér að koma fram með hana af því, að mér geðjaðist ekki allskostar vel að innihaldi aðaltillögunnar, og var í miklum vafa um, að hún kæmi að tilætluðum notum.

Eins og menn vita, hefir talsvert verið rætt um þetta mál í sambandi við gerðir ríkisráðsfundarins 20. okt. s. 1. og opna bréfið frá sama degi. Mikill fjöldi manna út um land áleit það hvorttveggja mjög hættulegt, svo hættulegt, að ekki væri unt að sætta sig við það. Menn töldu sem sé, að dönskum stjórnarvöldum væri gefið vald til þess að ráða því, hve lengi íslenzk sérmál skyldi borin upp í ríkisráðinu. Um þetta er ekki mikill ágreiningur. Það, sem menn deilir aðallega eða aðeins á um, er það, hvaða aðferð sé tryggilegust til þess, að sjá um, að uppburður sérmálanna sé íslenzkt sérmál eftir sem áður.

Þegar litið er á tillögur meiri og minni hluta nefndarinnar, þá eru þær dálítið ólíkar, en þó er hvorug að mínu áliti góð. Minni hlutinn virðist álíta, að á ríkisráðsfundinum nefndan dag hafi ekki verið hallað rétti vorum. Hann heldur því fram, að hér sé um íslenzkt sérmál að ræða eftir sem áður. Meiri hlutinn er aftur á móti hræddur um, að rétti vorum hafi verið hallað, og orðar tillöguna þannig, að hún á að hans dómi að tryggja rétt vorn í þessu efni. Þetta er munurinn á tillögum meiri og minni hluta nefndarinnar. Þá er að líta á, hvernig meiri hlutinn ætlar að tryggja oss réttinn.

Eins og menn vita gerðist það í ríkisráðinu, að ráðherra Íslands, sem þá var, skrifaði undir opið bréf, þar sem tekið var fram, að konungur mundi staðfesta stjórnarskrána, en þess var getið jafnframt, að það væri því skilyrði bundið, að sérmál Íslands yrði eftirleiðis, eins og áður, borin upp í ríkisráðinu, og á því yrði engin breyting gerð nema staðfest yrði ný lög um samband Íslands og Danmerkur. Einnig lét konungur þess getið í ræðu sinni á ríkisráðsfundinum, að hann ætlaði að birta auglýsingu um þetta í Danmörku. Nú lítur fjöldi manna svo á, að með þessu hafi íslenzki ráðherrann, fyrir hönd íslenzku þjóðarinnar, gert bindandi samning um þetta mál milli beggja þjóðanna. Ef svo er litið á málið af réttarfræðingum, þá fæ eg ekki séð, að tillögur meiri og minni hluta nefndarinnar, eins og þær eru orðaðar, sé nægilegar. Ef hér er um samning að ræða, þá sé eg ekki annað, en að það hljóti að vera nauðsynlegt, að konungur breyti þeirri ákvörðun, sem hann tók í ríkisráðinu þenna dag, ef réttur vor á að vera trygður. Mér er það með öllu óskiljanlegt, að samning megi upphefja með mótmælum einum frá öðrum málsaðilanum.

Nú eru mjög skiftar skoðanir um það, hvort fyrrv. ráðherra hafi haft leyfi til að koma eins fram á ríkisráðsfundinum 20. okt. 1913, og hann gerði.

Honum hafði auðvitað ekki verið gefið neitt erindisbréf í þessu máli, heldur varð hann að gera það, sem honum sýndist réttast, og eg efast ekki um, að hann hafi gert alt eftir sinni beztu sannfæringu. Hitt er annað mál, að honum getur náttúrlega skjátlast eins og öðrum.

Þá er á það að líta, hvort þessi gerð ráðherrans hafi nokkra bindandi skyldu fyrir oss í för með sér.

Meðan opna bréfið stendur óhaggað, þá er eg hræddur um, að svo verði litið á í Danmörku, að konungur geti ekki breytt ríkisráðsuppburði málanna nema að bera það undir dönsku ráðherrana og ríkisþingið. Ef hann þó vildi gera það án þess, að sambandslög kæmist á, þá mundu Danir vitna í ríkisráðsfundinn og mótmæla.

Það er ýmsum getum að því leitt, hversvegna fyrrv. ráðherra hafi gengið inn á það, sem gerðist á ríkisráðsfundinum. Eg skal ekki geta neins til um það, hversvegna hann hafi gert það, en hitt getur mér ekki dulist, að hann framkvæmdi ekki vilja þingsins 1913 með þeirri framkomu, sem hann hafði þá, og eg álít það ekki rétt af honum.

Vér vitum það allir, að Danir og danska stjórnin vilja endilega leiða til lykta þrætur þær, sem nú eru búnar að vera um langan aldur milli vor og þeirra; þeir vilja leiða þessar þrætur til lykta með því að fá oss til þess að samþykkja einhver sambandslög. Það var því ekki nema eðlilegt, að konungur vildi haga því svona og tæki það fram við Íslandsráðherrann. Vér vitum það, að Danir eru oss erfiðir í öllum samningum og vilja láta oss hafa sem minstan rétt að mögulegt er. Þeir vilja fá sambandslög, ekki til að láta oss hafa aukin réttindi, heldur til að tryggja sambandið milli ríkjanna og fyrirbyggja það, að vér höfum nokkur ærsl í frammi framvegis. Vér vitum það líka, að fyrrv. ráðherra hefir viljað semja við Dani, hann hefir lýst yfir því, að það væri það mál, sem hann vildi leiða til lykta áður en að hann færi frá völdum. Það er því ekki fremur óeðlilegt með hann enn konunginn, að hann vildi binda þann enda á málið, sem hann vann að á ríkisráðsfundinum.

Eg álít, að vér eigum að ganga þannig frá hnútunum, að vér getum, réttarlega séð, sagt skilið við Dani hvenær sem vera skal.

Háttv. fyrrv. ráðherra (H. H.) talaði um það áðan, að hér væri um tvær ráðstafanir að ræða, íslenzka og danska, og að vér gætum haft hönd í bagga með þeirri íslenzku en ekki þeirri dönsku.

Þetta er alveg rétt, en eg er hræddur um, að Íslandsráðherra hafi ekki beitt sér fyrir því svo sem hann gat, að ekki væri hallað rétti Íslendinga í þessu efni, og var það þó skylda hans að fylgja fram vilja þingsins í þessu efni.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) gat um það, að sér fyndist rétt að samþykkja fyrirvara meiri hlutans, en sagði þó jafnframt, að hann væri ekki allskostar ánægður með hann, en vildi ekki gera ágreining í nefndinni og kaus heldur

að fylgja meiri hlutanum. Sannleikurinn er sá, að fyrirvari háttv. meiri hluta er alls ekki öruggur til að fyrirbyggja allar síðari þrætur um þetta efni. Hið eina, sem dugar, er að krefjast þess, að Íslandsráðherra skrifi ekki undir konungsúrskurð um það, að sérmál Íslands skuli borin upp í ríkisráðinu, nema burt sé numið skilyrðið um, að ekki sé hægt að breyta þessu nema staðfest sé um leið lög um ríkisréttarsamband Danmerkur og Íslands.

Þetta er það, sem felst í tillögu minni, og því finst mér vera sjálfsagt að samþykkja hana. Þó að eitthvað sé auglýst í Danmörku um þetta efni, þá getur það ekki sakað oss á neinn hátt. — Hið eina, sem þýðingu hefir fyrir oss í þessu efni, er gerð vor sjálfra.

Eitt er það sem er vert að minnast á í sambandi við þetta mál, og það er það, hve Danir álíta, að vér séum lítilmótlegir, það sýnir gangur málsins frá því árið 1908 og alt þar til vér fengum desembertilboðið, sem kallað hefir verið grúturinn. Þeir álíta, að alt sé fullgott handa oss, og líta á sjálfstæðisbaráttu vora eins og eitthvert sjálfstæðisbrölt, sem ekki beri að taka tillit til. Vér ættum nú að fara að reyna að koma þeirri skoðun inn hjá Dönum, að slík tilboð eins og þau, sem vér höfum fengið frá þeim, sé ekki heppileg til samkomulags. Það, sem eg fer fram á í tillögu minni, er ekki annað en það, að vér segjum Dönum, að vér viljum ekki láta binda oss á höndum og fótum og eg skil ekki, hví háttv. þingm. vilja ekki láta þennan vilja sinn í ljós með sem skýrustum orðum.

Í nefndaráliti meiri hlutans í stjórnarskrármálinu, er þess getið, að æskilegt væri, að vitnað væri til frekari tryggingar f fyrirvara þingsins í væntanlegum konungsúrskurði um málið. Mikil bót væri það. En þó að slík ósk komi fram í nefndaráliti frá nokkrum þingmönnum, er ráðherra alls ekki bundinn við það. Þessi orð í nefndarálitinu sýna greinilega, að háttv. meiri hluti sjálfur er ekki viss í sinni sök, er í vafa um, að þingaályktunartillaga hans tryggi að fullu rétt vorn.