11.08.1914
Neðri deild: 41. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

121. mál, uppburður sérmála Íslands

Jón Jónsson:

Áður en gengið er til atkvæða, ætla eg að gera nokkrar athugasemdir út af ræðum nokkurra háttv. þingmanna.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) hélt því fram, að hér væri ekki um samning að ræða. Það gæti ekki orðið samningur þegar vér mótmæltum konungsúrskurðinum. En hér veltur alt á því, hvort ráðherra hafði heimild til að reka erindi vort eins og bann gerði, og hvort það sé ekki bindandi, þó að því sé mótmælt eftir á. Þegar einhver maður hefir umboð til að semja við einhvern eða ákveða eitthvað fyrir hönd annars manns eða flokk manna, þá hlýtur það, sem hann gerir, að vera gott og gilt gagnvart þeim, sem honum gaf umboðið. Ef vér samþykkjum stjórnarskrána nú óbreytta og mótmælum því, sem gerðist á nefndum ríkisráðsfundi, án þess, að nokkur breyting verði gerð á ákvörðunum fundarins, óttast eg, að svo kunni að mega líta á í framtíðinni, að uppburður sérmála Íslands í ríkisráði Dana sé stjórnskipulega lagður undir valdsvið danskra stjórnarvalda.

Hæstv. ráðherra (S. E.) sagði nýlega, að ekki væri gengið á rétt vorn með opna bréfinu. Það er alveg satt, og um það eru engar deilur. Opna bréfið er ekki gildandi ef stjórnarskráin er feld, það gildir fyrst þegar stjórnarskráin er samþykt. Það sem ágreiningurinn er um er það, hvort fyrirvari meiri hlutans sé nægilega tryggur til þess að hnekkja því, sem gerðist á ríkisráðsfundinum og til þess að landsréttindum vorum sé borgið. Hæstv. ráðherra hélt því fram, að með fyrirvara meiri hlutans væri landsréttindunum borgið, en þess vegna ber eg fram minn fyrirvara, að mér þótti þeim ekki borgið. Hæstv. ráðherra hélt því og fram, að konungur mundi ekki staðfesta stjórnarskrána ef minn fyrirvari væri samþyktur, og það segja margir, að hann muni verða stjórnarskránni að bana, og er það líklega þá af því, að hann þyki of skýr til þess, að konungur geti gengið að honum. En úr því að ekki liggur fyrir ákveðið svar frá konungi í þessu máli, þá verð eg að halda því fram, að slíkt sé nokkuð í óvissu sagt. Eg man eftir því, að það var sagt um stjórnarskrárbreytinguna 1911, að hún gæti ekki náð staðfestingu. Þetta var ekki sagt hér fyrr en dönsk blöð fóru að halda því að Dönum. Áður höfðu allir verið sammála um, að ríkisráðsákvæðinu mætti kippa burtu, en þegar hið gagnstæða kom fram frá Dönum, þá var ekki lengur dáð til þess í þinginu að halda við fyrri skoðun. Einstakir menn halda því fram nú, að það sé landráð að tefla þessu máli í tvísýnu, og að það sé gert með því að samþykkja minn fyrirvara. Það má vitaskuld altaf segja, en því er haldið fram út í bláinn.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) fór lítið út í andmæli gegn fyrirvara mínum. Hann sagði, að hann hefði ekki álitið sinn fyrirvara nægilegan ef tekið yrði upp í úrskurðinn um uppburð sérmálanna, að á þessu yrði engin breyting gerð fyrr en sambandslög yrði sett milli landanna. Það vissi eg áður. Og eg trúi því ósköp vel, að háttv. 2. þm. (E. A.) búist við því, að úrskurður sá, sem í ráði er að gefa út, verði alveg skilyrðislaus. En þrátt fyrir það er eg ekki viss um, að fyrirvari meiri hlutans sé nægilegur, og tel því réttast að samþykkja mína tillögu, hún tekur af skarið.

Háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) hélt því fram, að opna bréfið væri einungis íslenzk ráðstöfun. En þó að það sé íslenzk ráðstöfun, þá er það ráðstöfun, sem var gerð á þann hátt, að áður var komið á samkomulag milli konungs, forsætisráðherra Dana og Íslandsráðherra um að haga uppburði málanna svo, sem segir í opna bréfinu. Ráðherra vor félst á það og með því hefir vilji Dana orðið ofan á. Þá skilur háttv. sami þm. það ekki, að eg beri fram mína tillögu í alvöru, þar sem stjórnarskrárfrumv. sé vís staðfestingarsynjun ef hún yrði samþykt. Eg veit ekkert um það, hvort minn fyrirvari verður til þess, en mér hefir altaf þótt leiðinlegt að heyra það klingja í ágreiningsmálum milli Dana og Íslendinga, að vér megum ekki halda skoðunum vorum fram í alvöru, heldur sé sjálfsagt að fallast á alt, sem Danir vilja. Eg skal játa, að eg hefi aldrei lagt með því. En hitt get eg fullvissað háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) um, að mér er bláföst alvara. Mér hefir verið og er það alvörumál að vernda landsréttindi Íslands, og það ætti að vera alvörumál hvers einasta Íslendings.

Eins og áður get eg ekki séð, hvað konungi getur gengið til að halda fast við það, að enga breyting megi gjöra fyrr en sambandslög sé sett. Málin verða hvort sem er borin upp í ríkisráðinu, svo að mér að finst ofmikil grýla gerð úr þessu atriði. Eg endurtek það, að orsökin til þess, að eg kom fram með minn fyrirvara, var sú, að eg var í vafa um, að tillaga meiri hlutans væri nógu ákveðin, en sé svo, að konungur muni álíta tillögu meiri hlutans of nærgöngula við sig og að hún brjóti í bág við það, sem áður hefir gerst í málinu, þá sé eg ekki að mín tillaga sé verri, því að hún tekur af allan vafa um það, hver sé vilji Íslendinga í þessu efni. Hæstv. ráðherra lýsti yfir því, að hann byggist við, að konungur staðfesti stjórnarskrárfrumv. með fyrirvara meiri hlutans, en það væri þó aðeins von hans, en engin vissa, því að hann hefði ekkert loforð frá konungi um það. Og sé eg þá ekki betur, en að alt sé í óvissu um þetta mál, hvor fyrirvarinn sem verður samþyktur.

Það er mjög áríðandi, eins og háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) sagði, að hafa það orðalag á fyrirvaranum, sem ekki geti misskilist, og það verður að taka það skýrt fram, að uppburður sérmálanna verði hér eftir sem hingað til sérmál, sem stjórn vor ein geti ráðið yfir.

Mér finst vera töluverður munur á fyrirvara meiri og minni hlutans, þó að lítið sé gert úr því. Minni hluti neitar því, að nokkur skerðing á sérmálunum felist í því, sem gerðist á ríkisráðsfundinum 20. okt. 1913. Meiri hl. er aftur á móti á því, að það hafi verið gert. Víðar er um mun að ræða, eins og sést á orðum fyrirvara meiri hlutans: »Ennfremur ályktar alþingi að lýsa yfir því, að það áskilur að konungsúrskurður sá, er boðaður var í fyrrnefndu opnu bréfi verði skoðaður sem hver annar íslenzkur konungsúrskurður, enda geti konungur breytt honum á ábyrgð Íslandsráðherra eins«. Einmitt út af þessu er það, að nefndin hefir ekki getað komið sér saman. En þótt eg bendi á, að það er verulegur munur á fyrirvörum meiri og minni hlutans, þá tek eg fram, að minn er allra tryggilegastur.

Að lokum vil eg taka það fram, að eg hefi ekki borið fram minn fyrirvara af græsku, heldur er það gert af hjartans einlægni, af því. eg vildi gera það, sem eg áliti sannast og réttast. En ef mér hefir skjátlast, þá verð eg að sjálfsögðu að bera ábyrgð á því. Eins og stendur er þetta mjög óþægilegt mál fyrir meiri hlutann, þar sem það snertir ráðherra vorn, því að hann hlýtur að segja af sér, ef stjórnarskráin er ekki staðfest og er þá kominn í deilu við konungsvaldið, þótt hann hafi meiri hluta þings að baki sér. Samt verður að leggja út í þá hættu, þar sem málið skiftir svo miklu.