28.07.1914
Neðri deild: 23. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

89. mál, friðun héra

Framsögum. (Guðm. Hannesson) :

Mér kæmi það ekki á óvart, þótt háttv. þingmenn hefði brosað þegar þeir lásu nefndarálitið á þgskj. 207 um þetta frumv.

Sannleikurinn er sá, að nefndin gat ekki fyllilega svarað þeirri aðalspurningu, sem fyrir hana var lögð: hvort hætta geti stafað af því, að flytja inn héra eða ekki. Það var ekki í annað hús að venda en að leita sér upplýsinga um þetta í bókum þeim, sem við höfðum aðgang að hér á safninu, og er í nefndarálitinu tilfært hið helzta af því, sem við fundum um héra og hætti þeirra. Sömuleiðis reyndum við að bæta úr fáfræði okkar á þessu máli með því að leyta upplýsinga hjá skógræktarstjóranum, því að við sáum, að þau spell, sem hérar kynni að valda, myndu koma einna harðast niður á skógarnýgræðingi. Kálgarða töldum við ósennilegt að þeir mundu eyðileggja, því að ekki þarf nema einn hund á hverjum bæ til þess að æra alla héra í burtu. Við skrifuðum því skógræktaratjóranum, og er bréf hans prentað hér með nefndarálitinu. Eg get ekki sagt, að þetta bréf skógræktarstjórans geri mann miklu fróðari. Mestur hluti þess bendir til þess sama og bækurnar, að hérar sé ekki alls kostar skaðlaus dýr, en svo endar það á þeirri ályktun, að af tveimur ástæðum sýnist gerlegt að flytja hérana inn í landið. Í fyrsta lagi af því, að mjög hægt er að eyðileggja hérana, og í öðru lagi af því, að skaðinn, sem þeir geri sé ekki ýkja mikill. Þessi ályktun sýnist mér því undarlegri, sem það er tekið fram í bréfinu, að verði hérar fluttir inn, þá verði nauðsynlegt að girða kálgarða, gróðrarstöðvar og því um líkt með þéttu vírneti.

Það mælir helzt með innflutningi héra, að gagnið þykir hvarvetna meira en skaðinn, sem af þeim hlýzt. Hérar eru í öllum nágrannalöndum vorum, eru þar hvarvetna friðaðir mestan hluta árs og hvergi hefir það komið til tals að útrýma þeim. Nefndin gengur að því vísu, að oss muni líkt fara og öðrum, að meta meira gagnið en skemdirnar.

Eg tel það litlum vafa bundið, að hérar geti lifað hér á landi. Þeir eru eins og kunnugt er í öllum heimskautalöndum, nærri því svo langt, sem nokkur hefir komið, eða að minsta kosti svo langt norður, sem nokkur bygð nær.

Við nefndarmenn höfum allir orðið á eitt sáttir um að mæla með frv., enda þótt við höfum ekki haft svo haldgóðar upplýsingar, sem við hefðum kosið, til þess að byggja nefndarálitið á.