12.08.1914
Neðri deild: 44. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

117. mál, kostnaður við starf fánanefndar

Bjarni Jónsson:

Háttv. 1. þingm. Eyf. (H. H.) var að gefa skýrslu, og drap meðal annars á hótanir Dana um það, að semja sjálfir lög um íslenzkan fána. (Hannes Hafstein: Engar hótanir.) Hann nefndi það að vísu ekki svo, en hótanir eru það nú engu að síður, En þetta kemur ekkert málinu við, og tel eg það því ekki svara vert.

Eg skal ekki lasta þær fróðlegu ritgjörðir, sem fánanefndin hefir samið, en hins vegar get eg ekki játað því, að þær hafi leiðrétt eldri misskilning á málinu, því að hann var ekki til. Vér vissum, að það var ekkert nema hégómi, sem sagt var um þessa fána, sem áttu að vera líkir vorum. Það var bara eitt, sem nefndin gjörði þarft verk í, og það var þegar hún skrifaði utanríkisráðherra Grikkja og fékk þaðan réttar upplýsingar. Þar sparaði hún mér ómak, því að eg hafði ætlað mér að gjöra þetta sjálfur, en þá hafði nefndin orðið fyrri til. Eg skal ekki heldur víta hv. fyrrv. stjórn fyrir það, þótt hún teldi það beztu aðferðina að skipa þessa nefnd, þrátt fyrir það, þótt svo væri ekki. Henni var það vorkunn, þótt hún vildi láta fleiri menn hjálpa sér til að bera ábyrgðina, en hins vegar hefir þetta ekki gefist vel, því að það er rétt hjá háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.), að nefndin hefir gleymt því, til hvers hún var skipuð. Það var til þess, að vita vilja íslenzku þjóðarinnar um gerð fánans, áður en feldur yrði síðari konungsúrskurðurinn í þessu máli, en nú hefir nefndin varið miklu meiri fyrirhöfn til þess að vita vilja konungs um þetta, og var það aldrei hlutverk hennar. Það var ráðherra, sem átti að fara á konungsfund með það, sem þjóðin vildi vera láta. Annars var enginn vafi á því, hvaða gerð þjóðin vildi, því að auk þess sem bláhvíti krossfáninn hefir fyrir löngu hlotið alþýðuhylli hér á landi, þá hefir alþingi þegar samþykt þá gerð tvisvar. Það var því ekki vandasöm leit þetta fyrir nefndina, og það varð að hafa það, ef konungur vildi ekki samþykkja þessa gerð þrátt fyrir yfirlýsingu gríska utanríkisráðherrans. (Hannes Hafstein: Þetta kemur nú ekki kostnaðinum við.) Þetta eru atriði, sem bæði háttv. 1. þingm. Eyf. og aðrir hafa talað hér um, og »hvað höfðingjarnir hafast að« —. Annars kemur það líka kostnaðinum við, því að með því að nefndin tók ekki þá stefnu, sem vera átti, enda alt fyrir fram vit- að, þá var öllum kostnaði til hennar á glæ kastað.

Hins vegar er mér það ánægja, að einn úr nefndinni, sem er fornvinur minn, er nú kominn á skoðun landvarnarmanna á málinu, og að því leyti var það vel fallið, að nefndin var sett.