25.07.1914
Efri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

78. mál, sjóvátrygging

Framsögum. (Karl Einarsson):

Nefndin hefir leyft sjer að koma fram með brtt., sem stafa sumpart af því að eigi hafa verið gjörðar á frumvarpinu þær leiðrjettingar, sem til var ætlast, t. d. 3. og 6. brtt., að „ábyrgðarsali“ komi fyrir „vátryggjandi“. Annars eru allar brtt. orðabreytingar. 12. brtt. fer fram á það að í staðinn fyrir orðið „hluti“ í fyrirsögn einstakra kafla komi „kapítuli“, enda er slíkt í samræmi við siglingalögin, sem lög þessi væntanlega verða færð inn í, og er þetta gjört eftir ósk nokkurra hv. deildarmanna.

Hjer er brtt. á þgskj. 225, að í stað orðsins „hluti“ komi orðið „kafli“. Jeg hygg að sú brtt. verði tekin aftur, er brtt. nefndarinnar er fram komin.

Þá er hjer brtt: á þgskj. 228, frá hv. þm. Seyðf. (K. F.). Eftir skoðun hv. flm. eru þær aðeins orðabreytingar og eiga að gjöra meininguna ljósari. Jeg felli mig vel við fyrri brtt., en síðari tel jeg óþarfa eða verri en óþarfa, því að með orðalagi hennar kemur ekki fram það, sem átt er við.