30.07.1914
Neðri deild: 25. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

89. mál, friðun héra

Bjarni Jónsson :

Eg verð að játa það, að hérafræðin er eina og lokuð bók fyrir mér, nema hvað eg hefi heyrt þess getið, sem háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) nefndi, að þeir væri ekkert orðlagðir fyrir hugprýði. Eg hefi lesið nefndarálitið og álit skógræktarstjórans. Eg trúi því eins og skylt er, sem slíkt Autoritet segir, og legg þessvegna mikið upp úr áliti þess manns. Hann er sjálfsagt vel kunnugur hérunum, því að nóg er af þeim í Danmörku.

Það sem hann meðal annars segir um harða vetur, er sjálfsagt miðað við harða vetur í Danmörku, en eftir því eru altaf harðir vetur hér. Skógræktarstjórinn stingur upp á þeirri vörn gegn ágangi þessarra dýra, að setja vírnet í kring um gróðrarstöðvar og garða. Það getur verið, að þetta sé snjallræði, en þó held eg að hérarnir myndu komast yfir vírinn á fönn, og þá eru trjátoppunum ekki grið gefin. Eg býst við, að jafnvel með vírnetum alt í kring, gæti skógarstöðvarnar ekki varið sig fyrir nagdýrum þessum. Eg kalla hérana ekki nagdýr, af því að eg haldi að þeir tilheyri þeim flokki dýra, er svo nefnist, heldur af því, að þeir eru síbítandi og nagandi. En skemmist ein gróðrarstöð af völdum héranna, þá er þar með upp unninn allur sá hagur, sem getur orðið af innflutningi þeirra. En að girða með vírnetum fyrir þetta dýr, myndi verða harla kostnaðarsamt, og minnir það mig á aðra uppástungu: að sá til skóga upp um afrétti og hafa svo nokkra ríðandi menn til að gæta þess, að sauðfénaður og aðrar skepnur fari ekki um þau svæði afréttarins. Það myndi varla veita af einum 600 riddurum til þess.

Fejlberg hendi gaman að þessari tillögu og vitnaði í það, sem stendur í einni matreiðslubók: »Taka skal silfurdisk« . . . náttúrlega hvort sem silfurdiskur er til á heimilinu eða ekki. Það yrði dýrt að hafa alla þessa riddara, hitt yrði líka dýrt með vírnetin. Ef hérinn er hræddari við menn heldur en við tóuna, þá er görðunum ekki hætt, en gróðrarstöðvunum því hættara. Hvað er svo unnið við að fá þessi blessuð dýr inn í landið ?

Háttv. framaögum. (G. H.) sagði, að þau tímguðust ekki neitt ákaflega fljótt. Gagnsemin yrði þá víst heldur ekki mikil, og skaðinn þá um leið væntanlega minni. Það er sagt, að héraket sé góður matur, en eg veit að það er algengt þar sem héraket er á borðum, t. d. í Khöfn, að spyrja, hvort það sé kattaket. (Hannes Hafstein: Getur hérinn gert að því ?). Eg get svarað háttvirtum 1. þm. Eyf. (H. H.) því, að eg saka alls ekki hérana um það. Eg saka heldur ekki þann mann, sem hefir boðist til að gefa héra til innflutnings í landið, fyrir tilboð hans. Eg er sannfærður um, að hann hefir boðið þetta í bezta tilgangi, og eg tel mér sjálfsagt að vera honum þakklátur fyrir, að hann hefir, ótilkvaddur af öllum, verið að hugsa um gagnsemi þessa lands. Ekki er heldur hægt að liggja stjórninni á hálsi fyrir það, að hún lætur þetta boð hans koma undir atkvæði þingsins. En þó að eg vilji ekki láta taka þessu boði, þar sem þessir hérafróðu menn hafa ekkert gott um gagnsemi hérans að segja, þá get eg bæði verið stjórninni og manninum þakklátur fyrir boðið. Það gagn, sem hafa mætti af hérunum, er varla mikils virði og vegur ekki á móti þeim skaða, sem búast má við að af honum hlytist. Það er ketið og skinnið, en aðalatriðið mun því vera veiðigleðin.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, að með þessu auðgaðist dýralíf hér á landi. Ef það á að metast ástæða fyrir frumv. þessu, má alveg eins segja, að rétt sé að flytja hingað til lands rottutegundir ýmsar eða önnur kvikindi, því að þar með auðgast dýralífið. En ekki nær það nokkurri átt að bera hérana saman við moskus-uxa. Það er töluvert meira gagn, sem fengist af moskusuxum, og vert að leggja sig í meiri hættu við þá heldur en hérana, sem ekkert gagn fæst af.

Eg mun hallast að dagskránni, sem fram er komin, og vænti eg, að sama geri aðrir háttv. þm., sem eru eins og eg, ekki hérafræðingar.

Það var rétt hjá háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.), að þetta boð stendur ekki, ef frumv. verður felt. En eg býst ekki við, að þessi maður, sem hérana býður fram, hafi umráð yfir öllum hérum heimsins, og ef því síðar meir þætti nauðsynlegt að fá hingað héra, ætti það að vera hægt, þótt þetta frumv. verði felt.

Það hefir verið sagt, að ekki væri vitað, hvert gagn mætti hafa af hérum, fyrr en þeir hafa verið fluttir inn í landið. Mér þykir líklegt, að um þetta megi þó fá vitneskju hjá öðrum þjóðum. Nú er bókasafnið hér ekki auðugt að ritum um þetta, en það ráð mætti taka, að senda sendiherra, t. d. ráðherra, og, ef vildi, náttúrufræðing einhvern með honum, til að rannsaka málið. Þess vegna tel eg rétt að sam þykkja dagskrána. Jafnvel þótt ófriður sé, býst eg ekki við, að hérarnir hafi sig svo mjög í frammi, að enginn verði eftir. Svo er líka heppilegra að hafa fengið vírnetin áður en þeir koma.