07.08.1914
Efri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

91. mál, strandgæsla

Júlíus Havsteen:

Ef frv. hefði legið fyrir óbreytt eins og það kom frá stjórninni, hefði jeg talið sjálfsagt að samþykkja það orðalaust. En nú hefir verið gjörð á því sú breyting, að jeg er hikandi í að vera með því. Þessi breyting er fólgin í því, að umsjón sandgræðslunnar hefir verið lögð undir Búnaðarfjelag Íslands. Jeg sje ekki, að sandgræðsla komi því vitund við. Það eru ekki nema 2–3 dagar síðan jeg talaði við formann Búnaðarfjelags Íslands, og sagði honum frá þessari nýbreytni í frv. Hann vissi þá ekki um, að þetta væri í ráði. Hann sagði brosandi, að þeir yrðu að reyna að gjöra þetta, ef svo yrði fyrirskipað, en jeg skildi hann svo, að hann hefði ekki mannafla til að fást við þetta starf. Hann hefir ekki nema tvo ráðunauta. Einar Helgason hefir ekki fengist við sandgræðslu, en hefir mikið starf að öðru leyti. Hinn ráðunauturinn er, eins og kunnugt er, þingmaður Árnesinga (S. S.). Það virðist svo, sem hv. þm. vilji taka það að sjer. Jeg þekki að vísu ekki hæfileika hans í þessa átt, en held að við eigum völ á tveimur hæfari mönnum til starfsins en honum, ef taka á starfið frá skógræktarstjóranum. Annar þessara manna, sem jeg á við, er ekki hjer langt frá okkur. Hinn hefir nýlokið prófi.

Mjer þykir varhugavert að fá Búnaðarfjelagi Íslands þessa umsjón. Það er aðeins privatfjelag, ekki konungleg stofnun, og það verður að gjöra nokkuð úr því. Það sem hefir ýtt Búnaðarfjelaginu fram, er það, að stjórnarráðið hafir um ýms efni oft leitað ráða til þess. Það getur stundum verið gott, en stundum hefir það verið algjörlega óþarft.

Jeg ætla ekki að koma með neinar brtt. Jeg vildi aðeins benda nefndinni á, að athuga málið betur.

Það er einkennilegt, að Nd. er að öllu leyti samþykk aðalefni málsins. Skógræktarstjóri Kofoed-Hansen hefir samið frv., en samt er honum fleygt burtu eftir að menn hafa gjört sjer að góðu það, sem hann hefir sagt fyrir um sandgræðslu, sem hann þekkir til hlítar. Jeg veit ekki annað, en að hann sje mjög duglegur maður, sem tekið hefir skógræktarpróf, og veit því nokkur skil á sandgræðslu.

Jeg vil að stjórnarráðið hafi æðsta eftirlit með sandgræðslunni, og að sömu menn fáist við hana sem hingað til. Það er ótækt að fá hana nú í hendur mönnum, er ekkert hafa við hana fengist og þekkja lítið til hennar.