13.08.1914
Efri deild: 42. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

113. mál, kosningar til Alþingis

Framsm. (Karl Finnbogason):

Háttv. neðri deild hefir sofið yfir þessu frumvarpi í rúman mánuð, og þegar það loks kemur frá henni, er það töluvert gallað. Við höfum ekki vakað yfir því nema eina nótt, og hana ekki heila, og höfum fundið nokkra galla á frumvarpinu, en búumst ekki við, að við höfum farið svo nákvæmlega yfir það, að við getum sagt með vissu, hvort það er vel brúklegt eða ekki. Þó lítum við svo á, að rjett sje, að samþykkja frumvarpið með þeim breytingum, sem við leggjum til að á því verði gjörðar, og eru á þgskj. 504. Háttv. neðri deild hefir breytt stjórnarfrumvarpinu allmikið, og er aðalbreytingin fólgin í því, að 7. gr. stjórnarfrumvarpsins hefir verið feld burt. Við það varð allmikil röskun á öllu stjórnarfrumvarpinu, og margar af þeim breytingum, sem við leggjum til að gjörðar verði á frumvarpinu, er afleiðing af því, að þessi grein var feld burtu og að frumvarpið hefir ekki verið leiðrjett í samræmi við það.

Nú skal jeg minnast með fáum orðum á breytingartillögur nefndarinnar.

1. brtt. er við 7. gr. Við förum þar fram á að bætt sje inn í frumvarpið grein úr gömlu kosningarlögunum, þess efnis, að kjörstjórnir skuli sjálfar velja oddvita sinn og skifta með sjer verkum. Í hreppum er hreppstjórinn sjálfsagður oddviti kjörstjórnar, en ekkert ákveðið, hver skuli vera það í bæjum. Þetta viljum við laga með brtt.

2. brtt. er við 9. gr. Þar hefir fallið úr gömlu kosningarlögunum, að kjörskrár skuli gilda frá 1. júlí það ár sem þær eru samdar og til 30. júní næsta ár að báðum dögum meðtöldum, og leggjum við því til, að orðunum: „að báðum dögum meðtöldum“, verði bætt við.

3. brtt. er við 14. gr. Það er að eins tölubreyting. Þar var skakt vitnað til greinar, 12. gr. í staðinn fyrir 11. gr.

4. brtt. er við 18. .gr. Þar er í frumvarpinu talað um, að enginn megi gefa kost á sjer í fleirum en einu kjördæmi. Hjer er meint að enginn megi bjóða sig fram í fleirum en einu kjördæmi við sömu kosningar, og þykir okkur því rjett, að bæta þeim orðum við, því að það er auðvitað ekki meiningin, að maður megi ekki bjóða sig fram í öðrum kjördæmum við aðrar kosningar síðar.

Þá er 5. brtt. við 20. gr., allstór breyting. Í frumvarpinu er það, sem farið er fram á að breytt sje, svona : „En hafi eigi nema einn maður boðið sig fram til kosningar í kjördæminu, þarf engin kosning fram að fara, heldur lýsir kjörsstjórnin þingmannsefnið kosið“. Hjer er átt við, að að eins einn maður bjóði sig fram, af því að í frumvarpi stjórnarinnar var ætlast til að öll kjördæmi væri einmenningskjördæmi. Þetta var felt burt, og því er nauðsynlegt að breyta þessu, og leggjum við til að greinin hljóði svona :

„En hafi eigi fleiri boðið sig fram til kosningar í kjördæminu en kjósa skal, þarf engin kosning fram að fara, heldur lýsir kjörstjórnin þingmannsefnið kosið eða þingmannaefnin kosin“.

6. brtt. er við 21. gr. Þar er talað um hreppskjörstjórn, en okkur virðist fara betur að setja undirkjörstjórn í staðinn, því að undirkjörstjórnir eru vitanlega í bæjunum líka, og þetta ákvæði nær jafnt til bæjanna sem til sveitanna. Í sömu grein er prentvilla „1000/n“„ fyrir: 10%, sem farið er fram á að leiðrjetta. Önnur prentvilla er í 61. gr., sem verður að leiðrjetta við næstu prentun.

Þá er 7. brtt. við 22. gr.; hún er alveg samskonar og sú, sem jeg talaði um áðan, að í staðinn fyrir „hreppskjörstjórn“ komi „undirkjörstjórn“.

8. brtt. er við 26. gr., og er hún í þrem liðum. 1. liður hennar fer fram á að í staðinn fyrir orðið „hreppsnefnd“ í fyrsta línu komi : „hreppstjóri, en í kaupstað bæjarfógeti“. Það er ósamræmi í þessari grein í frumvarpinu, því að í fyrri málsgreininni er sagt að hreppsnefnd geymi atkvæðakassana, en í síðari málsgreininni hreppstjóri eða bæjarfógeti. Við leggjum til að greininni verði breytt svo, að samræmi verði á milli málsgreinanna.

Næsta brtt. við sömu gr. fer fram á, að bæta inn í orðunum „á kostnað landssjóð“ og hljóðar þá málsgreinin svona „Í hverjum hreppi varðveitir hreppsnefnd atkvæðakassana, er landsstjórnin hefir útvegað í fyrstu á kostnað landssjóðs“. Afleiðingin af þessari breytingu er sú, að breyta þarf síðustu málsgrein greinarinnar, og leggjum við til að hún hljóði svona : „Ef síðar þarf að endurnýja kassa eða poka, kostar sveitar- eða bæjarsjóður þá endurnýjun.“

9. brtt. er við 32. gr. Þar er að eins farið fram á að orðinu „bæjarfógeta“ sje bætt inn á eftir orðinu sýslumanns“, það er að segja, að vottorð um að nafn manns standi á annari kjörskrá í kjördæminu, skuli fá jafnt frá bæjarfógetum sem sýslumönnum.

Þá er 10. brtt. við 33. grein; hún fer fram á að orðin „það nafn“ falli burt, en í staðinn komi „nafn þess eða nöfn þeirra, ef fleiri en einn á að kjósa“. Í frv. stjórnarinnar var gjört ráð fyrir, að að eins einn mann ætti að kjósa í kjördæmi hverju, en vegna þess að um tvímenningskjördæmi verður að ræða, eins og áður var, höfum við lagt til að greininni sje breytt í samræmi við það. Þó höfum við lagt til, að í staðinn fyrir að í frv. stóð, að kjósandinn stimplaði yfir það nafn, sem hann vildi kjósa, kæmi „nafn þess“ o. s. frv., því að meiningin er ekki sú, að það sje nafnið sem kosið er, heldur maðurinn, sem nafnið ber.

Þá er 11. brtt. við 39. gr. Þar er aðeins orðið „hans“ felt í burt, og orðið „þess“ sett í staðinn. Greinin, sem farið er fram á að breyta, hljóðar svona: „Nú þykir þingmannsefni eða umboðsmanni hans eitthvað ólöglegt við kosningarathöfnina“. Þetta er sama orðalag og í núgildandi kosningarlögum, en þegar hægt er að gjöra ráð fyrir, að konur bjóði sig fram til kosninga, þykir okkur óviðkunnanlegt að karlkenna þær eins greinilega og hjer er gjört, og leggjum við því til, að málsgreinin hljóði svona: „Nú þykir þingmannsefni eða umboðsmanni þess eitthvað ólöglegt við kosningarathöfnina“.

Þá er 12. brtt. við 40. gr., sem fer fram á, að í stað orðanna „er hnýtt saman“ komi „eru hnútar á“. Það er smávægileg orðabreyting, sem okkur þykir betur fara þannig, sem við höfum lagt til að orðalagið væri.

13. brtt. er við 47. gr., og er hún í 2 liðum. Hún er alveg samskonar og sú breytingartillaga, sem jeg talaði um áðan. að orðið „þess“ væri sett í staðinn fyrir orðið ,,hans“.

Fyrri liður þessarar tillögu fer fram á, að í staðinn fyrir orðið „hann“ komi í fyrri málsgr. 47. gr. orðið „það“, en síðari liðurinn að orðið „þess“ komi í staðinn fyrir ,.hans“ í síðari málsgreininni, og leggjum við þetta til, til þess að orðin geti átt við „þingmannsefni“.

14. brtt. er við 67 gr., í greinarlokin. Þar er farið fram á að í staðinn fyrir „lögsagnarumdæmisins“ komi „kjördæmis þess, sem sýslumaður eða bæjarfógeti er búsettur í“. Þetta er um bókun á ýmsu viðvíkjandi kosningu landskjörinna þingmanna. Við leggjum til, að það sje bókað í yfirkjörstjórnarbók þess kjördæmis, þar sem sýslumaður eða bæjarfógeti sá, sem tekur á móti sendingunni, er búsettur í.

15. brtt. er við 68. gr., og fer hún fram á, að á eftir orðinu „sýslumanns“ komi „eða bæjarfógeta“, og er það aðeins til skýringar.

Jeg þarf svo ekki að fara fleiri orðum um frumv. eða brtt. nefndarinnar, en leyfi mjer fyrir hönd nefndarinnar að leggja það til, að breytingartillögur hennar verði samþyktar. Jeg hefi rætt um þær við einn mann úr nefnd þeirri, sem hv. neðri deild skipaði í málið, og leit hann svo á, að það mundi ekki verða til baga framgangi málsins, þótt þær væru samþyktar, og viðurkendi að þær væru á rjettum rökum bygðar.