14.08.1914
Efri deild: 40. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

120. mál, stjórnarskrá

Ráðherra (Sigurður Eggerz) :

Mjer virðist það ljóst, að opna brjefið frá 20. okt. 1913, hafi ekki enn þá orðið til að svifta oss nokkrum rjettindum; slíkt gæti þá fyrst komið til mála, er gefinn væri út fyrirhugaður úrskurður samfara staðfestingu stjórnarskrárinnar.

Nú er gengið út frá því, að í hinum fyrirhugaða úrskurði standi ekki annað en að málin skuli borin upp í ríkisráði, og jeg hefi lýst því yfir, að jeg mundi ekki undirrita úrskurðinn, ef í honum stæðu skilyrði þau, sem rætt hefir verið mikið um hjer í blöðum, að á þessu yrði engin breyting gjörð fyr en sambandslög væru samþykt, þar sem ný skipan verði gjörð. Jafnframt hefir háttv. neðri deild samþ. fyrirvara í þessu máli, sem nú liggur fyrir háttv. deild. Í fyrirvara þessum er skýr áhersla lögð á það, að vjer höldum föstum fornum rjetti vorum til að ráða með konungi vorum, hvar sjermál vor sjeu borin upp, en andmælum því, að danskt löggjafarvald eða dönsk stjórnarvöld hafi þar nokkuð um að segja. Þar sem jeg hefi lýst því yfir í háttv. neðri deild og lýsi því enn yfir hjer í þessari háttv. deild, að jeg muni að sjálfsögðu skýra konunginum frá fyrirvara þessum, og þar sem því undirskrift Íslandsráðherrans undir úrskurðinn verður í framhaldi af þessum fyrirvara, þá fæ jeg ekki sjeð að úrskurðurinn geti bundið landið út yfir skilyrði fyrirvarans.

Öðru máli hefði verið að gegna, ef gengið væri út frá því, að í úrskurðinum ætti að standa, að málin skyldu borin upp í ríkisráði, og á því yrði engin breyting, fyrri en önnur skipan væri gjörð með sambandslögum. Þá mundi fyrirvarinn enga þýðingu hafa, því þá heimilaði þingið ráðherra í öðru orðinu að gjöra það, sem það andmælti í hinu.

Háttv. 3. kgk. (Stgr. J.) skaut því til mín, hvort jeg vildi ábyrgjast það, að orðið „áskilur“ í fyrirvaranum, gæti orðið til þess, að konungur vildi ekki staðfesta stjórnarskrána.

Á þessu get jeg að sjálfsögðu enga ábyrgð tekið, en læt mjer nægja að vísa til þess, sem jeg sagði í sameinuðu þingi, um horfur á því, að stjórnarskrárfrumvarpið yrði samþykt. En þar tók jeg það ótvírætt fram, að hans hátign konungurinn hefði ekki gefið mjer loforð um að samþykkja stjórnarskrárfrumvarpið með fyrirvara, enda hefði tekið það fram, að hann gæti ekki um það sagt fyr en hann sæi orðun fyrirvarans, en frá henni gat jeg ekki skýrt, þó jeg hins vegar skýrði frá, hver mundi verða þungamiðja hans.

En það er hinsvegar von mín, að konungur muni staðfesta stjórnarskrárfrv. með þeim fyrirvara, sem samþyktur var í háttv. neðri deild. Byggi jeg það ekki síst á því, að í samtali mínu við konung varð jeg þess fyllilega var, hve ríkan velvildarhug hann ber til Íslands.

Jeg fæ ekki heldur sjeð, að frá hálfu Dana geti nokkuð verið því til fyrirstöðu, að stjórnarskráin sje samþykt, þótt fyrirvarinn fylgi. Það sýnist svo sjálfsögð krafa, að vjer, samkvæmt fornum rjetti vorum, ráðum uppburði mála vorra fyrir konungi.

Jeg hefi nú lýst skýrt og afdráttarlaust, hverjar horfur eru á því, að stjórnarskrárfrumvarp þetta, ef samþykt verður, nái konungsstaðfestingu. Og verður þingið að sjálfsögðu, eftir að þessar horfur eru því kunnar, að taka sinn hlut af þeirri ábyrgð, sem leiða kynni af staðfestingarsynjun frumvarpsins.

En því lýsi jeg yfir, að með því ætla jeg að standa og falla.

Að endingu vil jeg, eftir að hafa tekið þetta fram, ráða háttv. deild til að samþykkja nú stjórnarskrárfrumvarpið með fyrirvaranum, eins og hann var samþyktur í háttv. neðri deild.

Í frumvarpinu felast svo margar af óskum þjóðarinnar, óskum, sem verða að rætast; og með fyrirvaranum er jeg viss um, að landsrjettindum vorum er borgið.