07.08.1914
Efri deild: 31. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Framsögum. minni hlutans (Sigurður Stefánsson) :

Hv. þm. Húnv. (G. Ó) sagði, að lítill munur væri á þessu frv. og gildandi lögum. En mjer finst það altaf nokkur munur, hvort maður vinnur verkið sjálfur eða verður að láta aðra vinna það. Samkvæmt gildandi lögum á hreppsnefnd að annast um að allir kaupi baðlyf á sauðfje sitt, en samkvæmt frv. á hún aðeins að hlutast til um að þau verði keypt. Mín reynsla er nú sú, að sjálfs sje höndin hollust. Það, sem jeg get sjálfur gjört, læt jeg ekki aðra gjöra. (Guðmundur Ólafsson: Væri þá ekki best að hreppsnefndir böðuðu sjálfar?) Fjárkláðinn væri nú ekki til í landinu, ef bændur hefðu verið menn til að panta baðlyf í sameiningu. En þeir eru ekki komnir svo langt, að þeir geti komið sjer saman um slíkt, og ekki komnir svo langt, að þeir sjái, hvert skaðræði óþrifnaðurinn er. Þegar við sjáum, að óþrif og kláði haldast enn við í landinu, þrátt fyrir alt það, sem gjört hefir verið, til þess að afstýra þeim ófögnuði, þá virðist ekki ástæða til að vera að draga úr eða mýkja þau ákvæði löggjafarinnar, sem helst eru til tryggingar gegn hinu skaðlega hirðuleysi fjáreigandanna, sem stendur og hefir staðið sauðfjárræktinni fyrir þrifum.