07.08.1914
Efri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

47. mál, umboðsstjórn Íslands

Steingrímur Jónsson:

Þetta mál hefir gengið hjer gegn um tvær umræður, án þess að nokkuð hafi verið rætt um það. En mjer virðist að málið sje svo þýðingarmikið, að mjer þykir undarlegt að það hefir gengið fram svona umræðulaust. Jeg vil leyfa mjer að beina þeirri spurningu til háttv. deildar, hvort ekki sje nokkuð fljótt að afnema eftirlaun ráðherra áður en stjórnarskráin er staðfest. Þetta kemur ekki af því, að jeg sje mótfallinn því, að eftirlaun ráðherra verði afnumin, því að þótt jeg sje mótfallinn því, að eftirlaun annara embættismanna sjeu afnumin, þá er öðru máli að gegna um ráðherraeftirlaunin. Mjer virðist að þetta mál standi í svo nánu sambandi við annað mál, sem sje fjölgun ráðherra, að rjett sje að fresta því þangað til það mál verður tekið til yfirvegunar. Jeg mun því ekki greiða atkvæði um málið.