05.08.1914
Neðri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

77. mál, notkun bifreiða

Magnús Kristjánsson; Eg þarf ekki að vera langorður vegna þess, að háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir að miklu leyti tekið af mér ómakið. Eg vil lýsa yfir því, að eg tel þessi ákvæði, sem mestum deilum hafa valdið, alveg eins bráðnauðsynleg til þess, að þessi lög verði svo úr garði gerð, að betri trygging verði fyrir því, að slys komi síður fyrir. Hættan er hér afarmikil, einkum vegna þess, hve vegirnir eru mjóir og yfirleitt illa fallnir fyrir þessi flutningatæki.

Eg skal skjóta því inn, að eg álít, að bifreiðarnar geti aldrei orðið nein framtíðar flutningatæki, sem að almenningsnotum yrði hér á landi. Þetta segi eg ekki af því, að eg sé hræddur við bifreiðarnar, ef sæmilegrar varúðar er gætt, en allir verða að játa, að hættan er mikil, ef hana brestur.

Þá skal eg snúa mér að einstaka breyt.till. og fara fljótt yfir sögu. Breyt.till. á þgskj. 333 er ekki löng, en þó þýðingarmest. Eg álít, að ekki sé fært að draga úr þeirri tryggingu, sem 13. gr. veitir. Auðvitað hefir háttv. þm. Rvk. (Sv. B.) upplýst um það, að þessi grein brjóti í bága við hinar almennu sönnunarskyldureglur, en eg er sannfærður um það, að bifreiðarstjóri á mikið hægra með að sanna sitt mál en einstakir vegfarendur — auk þess eru venjulega margir farþegar í vagninum, sem vitni gæti borið. Eg verð því að leggja á móti því, að þessi breytingartillaga verði samþykt.

Þá er breyt.tillaga í þgskj. 316 frá háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Þótt eg sé honum sammála um, að nauðsynlegt sé, að allrar varúðar sé gætt, þá get eg ekki gengið svo langt, að banna vögnunum alla umferð á vegunum á vissum tímum — og það einmitt á þeim tíma, sem líklegast er að bifreiðarnar geti orðið að nokkuru gagni.

Eg get heldur ekki verið með síðari breyt.till. háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) vegna þess að eg álít að hætta geti stafað af því, hve merkið er ófullkomið.

Af tillögum nefndarinnar er eg með 1., 2., 5., 6. og 7 ., og álít þær til bóta. Aftur á móti get eg ekki fallist á 3. og 4. till., álít þær til hins lakara.

Eg er þannig á móti br.till. á þgskj. 333 og 316 og 3. og 4. br.till. á þgskj. 314.