11.08.1914
Efri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Guðmundur Björnsson:

Mjer er þetta mál svo skylt, að mjer þykir það leitt að verða að blanda mjer í talið, en get þó ekki orða bundist. Það er verið að stinga upp á því að hækka meðgjöfina, og menn eru að segja, að það sjeu svo margir efnamenn hjer á landi. Þar til er því að svara, að flestir, sem á hælið koma, eru efnalausir menn. Þeir efnuðu eru svo fáir, að hækkunin á meðgjöfinni yrði aðallega að lenda á þeim efnalitlu, ef það ætti að geta orðið til nokkurs verulegs tekjuauka fyrir hælið. Þar að auki er ekki hægt að skylda neinn til að taka einbýlisstofu fyrir háu meðgjöfina. En það þykir hvergi rjettlátt, að láta sjúklinga í sambýlisstofum borga misjafnt, suma 1/3 eða helmingi meira en aðra fyrir alveg sama viðurgjörning. Og það geta menn vafalaust skilið, að það er líka bæði erfitt verk og óvinsælt, að meta efnahag manna. og eiga að jafna meðgjöfinni niður á sjúklingana eins og útsvari.

Jeg heyri menn segja, að meðgjöfin sje yfirleitt of lág; hún sje lægri en á öðrum sjúkrahúsum hjer á landinu. Þetta errjett, ef allur kostnaður er talinn, þá er hann sumstaðar miklu meiri en á hælinu,. einkum af því að í öllum almennum sjúkrahúsum verða sjúklingarnir að borgalækni sjer í lagi. Jeg þekki þetta manna best. Jeg hefi sjálfur komið skipulagi á. reikninga sjúkrahúsanna og þar á meðal læknisreikningana, og jeg get sagt það með fullri vissu, að þeirra reikningar eru ekki ósanngjarnir. En líti maður á meðallegutímann á hælinu og öðrum sjúkrahúsum, þá kemur það í ljós að meðallengd legutímans á hælinu er miklu lengri en annarsstaðar; ekki skemri en missiri, svo að sjúklingar verða oft að borga 5–600 kr. í alt, og þó það sje ekki meira en 300 eða 400 kr., þá vil jeg leyfa mjer að spyrja: Er alþýða manna hjer á landi svo efnuð, að það sje ekki þungur skattur fyrir hvern almúgamann, að verða að greiða, þó ekki sje meira en 200 kr., hvað þá 4–500 kr. á einu ári sjer til heilsubótar og missa jafnframt af atvinnu sinni, ef nokkur er? Og er þá ekki athugavert að hækka meðlagið frá því, sem það er nú?

Háttv. 3. kgk. (Stgr. J.) færði það máli sínu til stuðnings, að þetta, að hafa meðgjöfina svona lága, væri til þess að draga úr áhuga manna til þess að stofna sjúkrasamlög. Þegar jeg heyri annan eins sleggjudóm og þenna, þá dettur mjer í hug málshátturinn, „að þeir inna mest af Ólafi kóngi, sem aldrei fengu hann sjeð nje heyrt“. En vilji hv. 3. kgk. (Stgr. J.) standa fyrir sleggjunni, þá er hún til reiðu; hún er í reikningum Sjúkrasamlags Reykjavíkur, og hún er svo þung, að verði hv. 3. kgk. (Stgr. J.) fyrir högginu, þá stendur hann ekki upp aftur. Því að það, sem einmitt hindrar mest stofnun sjúkrasamlaga, er nú þetta, að það er svo dýrt fyrir þau að kosta sjúklinga á sjúkrahúsum. Við sjáum mjög illa fyrir okkar sjúku meðbræðrum. Annarsstaðar leggur ríkissjóður svo mikið til sjúkrasamlaga, að þeim er ekki ofviða að láta sjúklinga sína á sjúkrahús. Í Danmörku þurfa sjúkrasamlögin ekki að borga nema 80 aura á dag með sjúklingum sínum á sjúkrahúsum.

Hv. 5. kgk. (B. Þ.) sagði, að það gjörði ekki til, þó menn færu á sveitina um leið og menn færu á sjúkrahúsin. En ef það er ekki brjóstumkennanlegt, að menn fari á sveitina, þá er mjer öllum lokið. Þá geta menn hækkað meðgjöfina á Vífilsstöðum, svo að landssjóður þurfi ekkert að borga. En mundi það ekki fara svo í fyrstu, að margur sjúklingur kysi fremur gröfina en sveitina. En kann ske mönnum standi það líka á sama.

Jeg skal ekki tala um stjórn heilsuhælisfjelagsins; en þar sem hv. 5. kgk. (B. Þ.) ljet það í ljós, að læknirinn á Vífilsstöðum mundi vita það best, hve mikla peninga hælið þyrfti, þá lítur helst út fyrir að þm. viti ekki einu sinni það, að læknirinn er ekki gjaldkeri hælisins. Gjaldkeri Heilsuhælisfjelagsins er Sighvatur Bjarnason bankastjóri, og hann og 2 menn aðrir vita, að ef sú fjárhæð, sem farið er fram á, er færð niður í 10. þús. kr., þá verða þeir að borga það sem á vantar. En menn líta ef til vill svo á, að það gjöri heldur ekki neitt til.