05.08.1914
Neðri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

77. mál, notkun bifreiða

Magnús Kristjánsson :

Eg vona, að mér verði ekki brugðið um það, að eg að jafnaði tefji tíma þingsins með óþarfa mælgi. En það er eins og þessir háttv. þingmenn, sem eru sítalandi, óski helzt að hafa einir orðið.

Það, sem eg ætlaði að segja., vóru aðeina örfá orð, út af því, sem háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) sagði út af ræðu minni áðan. Hann hrakti ekkert af því, sem eg hafði haldið fram, en hélt því fram, að flest af því hefði verið bygt á misskilningi, án þess að færa frekari rök fyrir því.

Hann hélt því fram, að engin hætta — eða lítil — gæti stafað af bifreiðaferðum hér á landi. Eftir því, sem mér skildist á ræðu hans, þá hélt hann að hættan, sem stafað gæti af bifreiðaferðum, yrði því minni sem vegirnir væri mjórri og hallinn á þeim meiri, en að hættan yxi, ef vegirnir yrði breiðir og sléttir, eins og í öðrum löndum sumataðar. Trúi því hver sem vill.

Eftir því sem mér skildist, þá hélt hann því fram, að það stafaði af þekkingarleysi mínu, að eg hélt, að bifreiðar gæti ekki orðið framtíðar flutningstæki hér á landi. Þetta er auðvitað órannsakað mál, en þó get eg sagt honum, að líkurnar eru ekki miklar til þess, að bifreiðar eigi sér mikla framtíð fyrir höndum, sem alment flutnings- og samgöngutæki, þegar þær geta ekki verið í förum nema í mesta lagi 5–6 mánuði ársins.

Eg lofaði að vera stuttorður, og skal því að eins geta þess, að þótt komið geti fyrir að bifreiðar sé til annars notaðar en að skemta sér á þeim, þá sannar það ekki neitt. Það er ekki sannað með því, að hægt sé að nota

bifreiðar eins mikið og flutningsþörfin krefur, og fyrr eru þær ekki orðnar alment flutninga- né samgöngutæki.