13.08.1914
Efri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

23. mál, tollalög

Karl Einarsson:

Jeg ætla að svara hv. 3. kgk. (Steingr. J.) örfáum orðum. Hann vildi halda því fram, að þessi heimild næði að eins til póstafgreiðslumanna. En jeg neita því; hún nær ekki síður til þjóna þeirra og brjefhirðingarmanna. — Jeg hefi ekki haft tíma til að koma fram með brtt.; hefi verið svo önnum kafinn þessa síðustu daga. En það nær engri átt, að málinu sje teflt í hættu, þó að það sje tekið. út af dagskrá. T. d. er eitt mál til framhalds 1. umr. í Nd. í dag, og sagt er, að fyrst á morgun sje von á nefndaráliti í einu stærsta málinu, sem fyrir þinginu liggur. Það er því engin hætta á, að frv. þetta dagi uppi, þó að það sje tekið út af dagskrá. — En það vil jeg endurtaka, að það er óhæfilegt að fela póstmönnum slíkt vald, að þeir eftir geðþótta sínum geti opnað hvern böggul, sem þeim finst eitthvað grunsamlegt við. Það er meira en nóg að heimila póstafgreiðslumönnum slíkt vald, þar sem ekki nær til lögreglustjóra.