28.07.1914
Efri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Framsögum. (Sigurður Stefánsson) :

Hv. 5. kgk. (B. Þ.) benti á, að heldur hefði átt að reyna að auka kensluna í forntungunum við Mentaskólann heldur en að reisa þenna fyrirhugaða kennarastól. Mjer hefir nú einmitt komið hið sama til hugar, og ef stjórnarráðinu verður falið að rannsaka málið, þá vildi jeg óska, að þetta atriði kæmi einnig til íhugunar. Jeg vil einnig benda á, að nefndin hefir lagt til, að 3. grein frumvarpsins fjelli burt, því að hún áleit ekki nauðsynlegt, að forntungnakenslan við Háskólann byrjaði þegar í haust. — Enn fremur tók háttv. 5. kgk. (B. Þ.) það fram, að þeir stúdentar, sem vildu leggja stund á klassísk fræði, gætu farið til Háskólans í Kaupmannahöfn. En þá sömu mótbáru mætti nota gegn hverri annari viðbót við Háskólann. Jeg fyrir mitt leyti var nú aldrei neitt sjerstaklega ákafur um stofnun Háskólans, en úr því hann nú á annað borð er kominn á laggirnar, þá þætti mjer satt að segja skemtilegast, að hann gæti nokkurnveginn verðskuldað að heita háskóli. Það væri og ekkert tap, þó að þeir stúdentar yrðu ekki eins margir hjer eftir eins og hingað til, sem leita til háskólans í Höfn.

Ekki get jeg sjeð það, að margir ágætir prjedikarar hafi ekki kunnað grísku, sje sönnun fyrir því, að grískunám sje guðfræðisnemendum óþarft. Grískukunnátta er þó að líkindum ekki til ógagns, og síður er Nýja Testamentið þeim lokuð bók, sem einhverrar tilsagnar hafa notið í grísku. heldur en hinum, sem aldrei hafa sjeð gríska bók. Og háskólanemendur mundu geta lært meira í málinu á stuttum tíma heldur en unglingarnir í Mentaskólanum. Jeg býst við að þeir mundu geta lært meira á 2–3 árum á Háskólanum heldur en í 5 ár í lærða skólanum. — Úr því verður reynslan að skera, hvernig stúdentar mundu nota þessa kenslu. Það yrðu víst seint stofnuð kennaræmbætti við Háskólann, ef heimtaðar væru óhrekjandi sannanir fyrir því, að kenslan yrði vel notuð.

En eins og jeg áður hefi tekið fram, álít jeg það gott og gagnlegt að stjórnin rannsaki þetta mál vandlega og undirbúi það undir næsta þing.