20.07.1914
Efri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

56. mál, varnarþing í einkamálum

Ráðherra (Hannes Hafstein) :

Jeg gat ekki verið hjer í deildinni í fundarbyrjun, þá er málið kom til umræðu, en kom inn í lok ræðu háttv. 2. þm. G.-K. (Kr. D.). Jeg hugði, að málinu væri borgið, því að jeg gjörði ráð fyrir, að þeir sem einu sinni hefðu verið með málinu, mundu styðja það áfram.

Það var eitt atriði, sem jeg tók eftir í ræðu háttv. frsm. (Stgr. J.) og hann taldi mótmæli gegn frumvarpinu, en sem jeg tel fremur meðmæli með því. Hann sagði, að í návist sýslumanna væru ýmsir menn færir til að flytja mál, sem myndi leiða til meiri málaferla en er títt með núverandi fyrirkomulagi. Jeg tel þetta einn mesta kost frumvarpsins. Mönnum veitir þá hægra að reka rjettar síns en nú. Menn treystast ekki til að flytja málin sjálfir, og verða því að fá misjafnlega hæfa menn langar leiðir að heim í hrepp sinn til að flytja málið og við það vex kostnaðurinn mjög.

Háttv. sami þingmaður sagði, að þetta væri að eins rjettarbót fyrir sækjanda, en ekki verjanda. Þetta er misskilningur. Þar sem menn nú eru að mestu hættir sjálfir að flytja mál, þarf verjandinn að jafnaði einnig að fá sjer málfærslumann, til þess að koma vörnum fyrir sig, og er þá hægðarauki fyrir hann ef málinu er stefnt til þess staðar, þar sem unt er að fá færa menn til málaflutnings, án. þess að þeir þurfi að takast ferðalög ár hendur.

Það er getgáta ein, að frumvarpið auki málaferli, ef það verður að lögum. Og ef svo væri, þá mætti af því leiða þá ályktun, að margur verði nú að liggja undir órjetti án þess að geta notið aðstoðar dómstólanna, af því að svo miklir erfiðleikar eru á nú því að ná rjetti sínum. En til þesshygg jeg að dómarar sjeu kostaðir í landinu, að þeir verði notaðir, og það er ekki jafnrjetti fyrir lögum, að þeir, sem ekki eru nógu fátækir til þess að fá gjafsókn,. en hins vegar ekki hafa efni á að borga dýrum og langt að fengnum málfærslumanni auk ferðakostnaðar dómara, verður að fara á mis við rjettarverndina, og gjöra sjer alt að góðu.

Jeg sje ekki annað en bót sje að þessu frumvarpi, — þótt það sje ekki fullkomin bót, og jeg efast ekki um, að bæta megi það hjer í deildinni, enda má bæta við það, sem nú er gjört, á næstu þingum. Jeg treysti því fastlega, að þeir sem studdu málið við seinustu umræðu, styðji það. einnig nú.