21.07.1914
Efri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

72. mál, hlutafélagsbanki

Steingrímur Jónsson :

Háttv. þingm. Vestm. (K. E.) benti rjettilega á það, að bankaseðlarnir gætu í raun rjettri eigi skoðast sem veltufje bankans, og að aukning seðlaútgáfurjettarins hefði því ekki í för með sjer aukning rekstursfjár hans. Þó er þess að gæta, að eigi þarf bankinn að liggja með nema 37% af gullforða móts við seðla þá, sem í umferð eru. En seðlarnir eru sem reiðupeningar bankans, og til þess að eigi verði skortur á þessum reiðupeningum, þarf jafnan að vera til svo mikið af þeim, sem viðskiftaþörfin krefur. Nú er það sannað, að svo er komið, að seðlafúlga bankans er í þann veginn að verða ónóg til að fullnægja viðskiftaþörfinni, og þá sýnist það sjálfsagt, að þingið stuðli til þess, að svo fari eigi, fyrst það á kost á því. Það má sjálfsagt gjöra ráð fyrir því, að bankinn muni auka hlutafje sitt um þær 2 miljónir króna, sem hann hefir heimild til að auka það um, jafnskjótt og hann sjer færi á og telur sjer það hagkvæmt, og má vænta að slíks verði ekki langt að bíða, þótt óheppileg atvik hafi hindrað það hingað til. En það tel jeg óhyggilegt, að setja aukning hlutafjárins sem skilyrði fyrir aukning seðlaútgáfurjettarins. Það gæti orðið bankanum beinn óhagur og viðskiftamönnum: hans að minsta kosti óbeint tjón.