10.07.1914
Efri deild: 5. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

17. mál, bann gegn útflutningi á lifandi refum

Flutningsm. (Sigurður Stefánsson) :

Þessar mótbárur háttv. þm. Seyðf. (K. F.) hafa við töluvert að styðjast, og jeg gat búist við þeim. En það er varla rjett, að aðrir en eyjaskeggjar hafi ekki hag af þessu frumvarpi. Hagur sauðfjáreigenda, sem einkum bíða tjón af refunum, versnar alls ekki við frumvarp þetta, heldur batnar, eykst mjög við þetta. Refatollurinn hverfur smámsaman, eftir því sem fjallarefunum fækkar; fyrir þessu er þegar fengin nokkur reynsla. Í öðrum hreppnum í mínu prestakalli var hann kominn upp í alt að 300 kr. fyrir nokkrum árum. Nú nemur hann að eins fáum krónum og svo er víðar. Það er ekki rjett, að eyjamönnum stafi engin hætta af refum. Þeir eiga líka fje, sem gengur á afrjettum, þar sem refar hafast við og geta bakað þeim tjón sem öðrum fjáreigendum.

Jeg sje ekki neitt ranglæti í því, þótt þeim, sem færi hafa til að njóta hags og hlunninda af refaveiðum, sje leyft það. Með því móti vex þeim gjaldþol. Ný atvinnugrein myndast í landinu. Jeg álít, að landsins börn eigi að verða þessara hagsmuna aðnjótandi, án samkepni frá útlendingum.

Jeg skal geta þess, að jeg býst við, að svo fari, að ekki að eins refatollur hverfi úr sögunni, heldur og hitt, að hreppsnefndir selji rjett til refaveiða, svo að það, sem hafði í för með sjer mikil útgjöld fyrir sveitirnar, verði innan skamms álitleg tekjugrein.