29.07.1914
Efri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

62. mál, hvalveiðamenn

Magnús Pjetursson:

Það var aðeins örstutt athugasemd. Mig minnir, að það væri talað um það við 1. umr., að það, sem sjerstaklega hefði komið frv. þessu af stað, væri skaðabótakrafa frá Bull hvalveiðamanni. En jeg held, að ákvæði þessara laga nái eigi til hans. Í frv. stendur: „Bannákvæði laga um hvalveiðamenn frá 22. nóv. 1913 koma eigi til framkvæmda gagnvart þeim hvalveiðamönnum, sem nú reka hvalveiðar hjer“ o. s. frv. Mjer skilst svo, sem þetta ákvæði nái með öðrum orðum að eins til þeirra, sem nú stunda hvalveiðar. Bull rekur nú ekki, að sögn, hvalveiðar, hvað þá heldur 1. okt. 1915, þegar hvalafriðunarlögin koma til framkvæmda. Þessi ástæða fyrir frumv. er þar með úr sögunni.

Hv. meiri hluti nefndarinnar hefir komið með brtt., þar sem því ákvæði er bætt í frv., að eigi megi flytja inn nýjar vjelar nje hluta úr vjelum til hagnýtingar hvalafurðum. Sjest á henni, að flutningsmaður hefir fundið veilu í frv. En jeg álít brtt. gagnslausa, af því að nú er eigi að því komið, að lögin gangi í gildi. Hvort sem þeir bæta við sig bátum eða ekki, geta þeir birgt sig að vjelum og vjelahlutum, þangað til 1. okt. 1915, þegar lögin koma til framkvæmda. Það er því alveg gagnstaust að fara að banna slíkt nú á árinu 1914, einungis til þess að aðvara hvalveiðamennina um að birgja sig í tíma.