07.08.1914
Efri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

90. mál, lán til raflýsingar fyrir Ísafjarðarkaupstað

Flutningsm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg gat þess í gær, hvers vegna jeg hefi komið fram með frumvarp þetta. Ástæðan til þess er sú, að nú er raflýsing í undirbúningi á Ísafirði. Bæjarbúar hafa mikinn áhuga á því máli, og er ekkert því til fyrirstöðu að það mál komist í framkvæmd, nema peningaleysi. Jeg hefi spurst fyrir um, hvort nokkrar líkur sjeu til þess að lán muni fást til þess í Landsbankanum, og fjekk það svar, að svo mundi ekki vera, að svo stöddu. Hjer er aðeins um heimildarlög að ræða, svo að stjórnin þarf ekki að veita þetta lán, nema nóg fje sje fyrir hendi í landssjóði. Og ef ástæður breytast og fje verður nóg til, þá er sanngjarnt að þessum kaupstað verði veitt þetta lán, ekki síður en öðrum kaupstöðum, sem veitt hefir verið slíkt lán. Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið. Jeg legg það á vald deildarinnar, hvað hún gjörir við málið, en jeg veit að Ísfirðingum þykir ilt ef þeir fá ekki þetta lán, svo framarlega sem fje verður fyrir hendi. Þætti mjer því gott, ef landssjóður hefði heimild til þess að veita þetta lán, svo framarlega sem nægir peningar verða til þess.