21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Pétur Jónsson:

Þetta er smátt mál og ekki kappsmál neinum. Eg stend aðeina upp til þess að lýsa afstöðu minni til frv. Eg verð þá að segja það, að eg er í hálfgerðu ráðaleysi með, hvernig eg eigi að greiða atkvæði í málinu. Eg er með frv.gr. eins og hún er orðuð. Eg álít fult svo rétt, að losa stjórnarráðið við útvegan baðlyfja, ekki af því, að eg telji það óeðlilegt, úr því að skylduböðun á annað borð er lögboðin, heldur af því, að eg tel það fyrirkomulag ópraktiskt, of umsvifamikið. Aftur á móti er eg ósamþykkur því, að létt sé af hreppsnefndum og bæjarstjórnum eftirliti og ábyrgð á því, að baðlyf sé nægileg til í tíma. Þessvegna vil eg, að 5. gr. laganna haldist, að því er það samrýmist hinni breytingunni. Eg mun því greiða atkvæði með frv. nú til 3. umr., en óska þess, að nefndin taki til greina þessa athugasemd mína um 5. gr. laganna og komi með breyt.till. þar um við 3. umr.