20.07.1914
Efri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (1981)

70. mál, afnám eftirlauna

Steingr. Jónsson:

Jeg get vel fallist á að nefnd verði skipuð til að athuga þetta mál, því að jeg vonast til að sú nefnd muni breyta þeirri tillögu, sem hjer liggur fyrir, ef hún slær þá ekki alveg striki yfir hana. Jeg verð að játa, að jeg var hálf-forviða þegar jeg sá þessa tillögu. Mjer datt fyrst í hug, hvort meiningin með henni mundi vera sú, að búa til snöru, búa til leggjabrjót handa hinum tilvonandi ráðherra. Það er farið fram á að hinn væntanlegi ráðherra — þessi ráðherra, sem enn er eigi útnefndur — eigi að vinna það stórvirki á næstu 6 mánuðum, að afneita öll eftirlaun. Það er auðsjeð, að slíkt er með engu móti hægt að gjöra á svo stuttum tíma. Til þess að nokkur stjórn geti gjört slíkt, þarf mjög mikinn undirbúning. Það þarf að rannsaka launakjör, ekki einungis allra embættismanna þjóðfjelagsins, heldur og allra starfsmanna þess. Við verðum að gæta þess, að þeir, sem kallaðir eru embættismenn, eru að eins fáir af öllum starfsmönnum þjóðfjelagsins, sem ávalt er verið að fjölga. Sá ráðherra, sem vjer fáum, er auðvitað mjög vel fær maður, en það er ofætlun fyrir hvern ráðherra sem er, að gjöra þetta á svo skömmum tíma, sem hjer er um að ræða. Jeg fjell nú fljótt frá þeirri skoðun, að tilgangurinn hjá háttv. flutningsmanni væri sá, sem jeg gat um áðan. En hver er þá tilgangurinn með tillögunni? Jeg fæ ekki sjeð, að hann geti verið annar en sá, að gjöra að gamni sínu, gjöra dálítinn smell. Ef nokkur alvara fylgdi þessari tillögu, þá ætti að skora á stjórnina að skipa milliþinganefnd til þess að athuga launakjör og starfsvið allra embættismanna landsins. Mætti þá jafnframt taka til athugunar, hvort rjett væri að afnema eftirlaun embættismannanna; hvort það yrði til sparnaðar fyrir landssjóðinn. Jeg fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um hver niðurstaðan af slíkri raunsókn yrði. Jeg er sannfærður um að hún yrði sú, að rjett yrði talið að veita eftirlaun öllum hinum þýðingarmeiri starfsmönnum þjóðfjelagsins. Þjóðfjelagið þarf að hafa vissu fyrir því, að kjör starfsmanna þess sjeu svo góð, að þeir geti unnið verk sín vel. Og jeg er sannfærður um, að sú efnahagstrygging, sem eftirlaunin skapa, stuðlar mjög að því. Af þeim ástæðum, sem jeg nú hefi tekið fram, vil jeg leyfa mjer að skjóta því til nefndar þeirrar, sem jeg býst við að skipuð verði í þetta mál, hvort hún vilji ekki breyta tillögunni í þá átt, að farið sje fram á að skipuð verði milliþinganefnd til að athuga þetta mál, og að sú nefnd leggi síðan tillögur sinar fyrir Alþingi, en það Alþingi gæti að sjálfsögðu ekki orðið þingið 1915.