24.07.1914
Neðri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Framsögum. minni hl. (Stefán Stefánsson):

Það vóru ekki veigamikil rök, sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hafði fram að færa. Meðan hann hélt ræðu sína var eg alt af að hugsa um, hvort hann ætlaði alls engin rök að færa fyrir máli sínu, en það varð ekki. Hann sagði, að frumv. væri lakara en núgildandi lög, en ekki datt honum í hug að útskýra það með nokkuru orði í hverju það lægi, hefir sennilega ekki fundið neitt sérstakt á að minnast.

Eg tók eftir því, að hann sagði, að lögin væri enn ekki komin til framkvæmda, en það á ekki síður heima um lög, sem hann vildi breyta fyrir skemstu, og ætla eg að hann muni vera ergilegur út af útreiðinni, sem hann fekk þá. En það er ekki rétt af honum að láta það koma niður á þarflegum lagabreytingum.

Það er öllum kunnugt, að á síðastliðnu vori bar hreppsnefndum að safna pöntunum á baðlyfjum og borgun fyrir þau, og stjórnarráðinu bar að gefa fyrirskipanir um það, hver baðlyf megi nota.

Að þessu leyti eru lögin komin til framkvæmda. Eða veit ekki háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) þetta? Og hvernig hafa svo þær framkvæmdir gengið? Sumar hreppsnefndir hafa ekki sint lögunum og liggja því undir sektum, verði lögunum framfylgt. Í annan stað hefir tilkynning stjórnarráðsins um það, hvaða baðlyf megi nota og með hvaða verði þau verði seld, komið svo seint, að almenningi hefir þessa vegna verið gert næstum ókleift að fylgja ákvæðum laganna. Þessum lögum vill þessi hv. þm. halda óbreyttum í trássi við þá, sem við þau eiga að búa. Hann vill halda í þau lagaákvæði, sem þegar á fyrsta ári hafa sýnt það, að þeim þarf að breyta, og fyrirsjáanlegt er, að framvegis valda óánægju og misklíð. Vill tryggja það með öðrum orðum, að óánægjan haldist við. Nei, þegar fjöldi bænda, og það jafnvel mestu þrifamenn í sveitunum, beinlínis neita að framfylgja einstökum ákvæðum, og sömuleiðis hreppsnefndir, enda stjórnarráðið ekki fylgt þeim sem skyldi, þá er það hrein furða, að nokkur skuli halda svo fast í það, að lögunum sé að engu breytt. Þegar á að sekta menn fyrir brot á lögunum, en hafa lögin jafnframt svo úr garði gerð, að þau spani menn til óhlýðni, þá er alls ekkert undarlegt, þótt óskir komi fram um breytingar. Þetta var ókunnugt mönnum og óreynt á síðasta þingi, hvernig lögin gæfist í framkvæmdinni, en nú þegar menn eru farnir að sjá, hvernig framkvæmdirnar gefast, þá ætti menn að hafa opin augu fyrir því og sníða breytingarnar eftir eðlilegum þörfum og óskum manna.