10.07.1914
Efri deild: 5. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

30. mál, siglingalög

Framsm. (Karl Einarsson) :

Það er rjett, sem háttv. þm. Seyðfirðinga (K.F.) hefir tekið fram, að meining nefndarinnar með br.till. sínum er sú, að láta það koma skýrt fram, að reglur frumvarpsins nái einnig til þess, er mörg skip lenda í þvögu saman. Að því er 7. br.till. snertir þá held jeg að rjettara og nákvæmara sje að hafa „árekstur“ en „tjón af árekstri“, því að það eru aðrar og fleiri reglur um árekstur í lögunum heldur en um tjón af árekstri. En eins og jeg tók fram, þá er jeg sammála hæstvirtum ráðherra um að það er að mestu um orðabreytingu að ræða, að því er fyrstu 6 breytingartill. snertir, því að það verður að skilja lögin, þótt þau yrðu eins og stjórnin gekk frá frumvarpinu, eins og hjer er ætlast til að þau verði skilin, en orðalagið gæti þó ef til vill valdið misskilningi eins og það er í frumvarpinu.