24.07.1914
Efri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

51. mál, vegir

Steingr. Jónsson:

Það er eitt lítið atriði, sem jeg vildi leyfa mjer að benda háttvirtri nefnd á, að í frumvarpi því, sem hjer er til umræðu, stendur, að vera skuli flutningabraut frá Reykjavík til Hafnarfjarðar.

Jeg býst við, eins og háttv. framsm. (J. B.) einnig tók fram, að þetta eigi þannig að skilja, að flutningabrautin skuli byrja við merki lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, og ná að merkjum lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar.

En mjer er spurn: Verður þetta skilið þannig, eins og frumvarpið er orðað? Um brautina austur yfir fjall er það að segja, að ekki fer saman merki lögsagnarumdæmis Reykjavíkur og það, sem landssjóður á að kosta af henni.

Jeg skýt því til háttv. nefndar, að taka þetta til íhugunar og fá yfirlýsingu stjórnarinnar um það, hvernig hún skilji orðalag frumvarpsins. Og telji hún að það muni eigi verða þannig skilið, að átt sje að eins við vegarkaflann frá takmörkum Reykjavíkurlands suður að landamerkjum Hafnarfjarðar, þá tel jeg þurfa að koma fram breytingartillögu, er taki það skýrt fram; að öðrum kosti mun jeg ekki geta greitt atkvæði með frumvarpinu.