03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

120. mál, stjórnarskrá

Skúli Thoroddsen :

Þegar mér varð kunnugt um konungsúrskurðinn frá 20, okt. f. á., og umræðurnar á ríkisráðsfundinum, voru þar ýms atriði, sem eg gat ekki felt mig við.

Ég gat ekki felt mig við það, að forsætisráðherra Dana færi að blanda sér í það, hvort konungurinn ætti að staðfesta stjórnarskrárbreytingu síðasta alþingis, eður eigi, þar sem eg veit ekki betur, en að þar væri um al-íslenzki sérmál að ræða, sem ekki átti að fara annara á milli en konungsins og ráðherra Íslands.

Annað atriði, sem eg feldi mig þá og eigi síður illa við, var það, er ákveðið var, að jafnframt því er stjórnarakrárbreytingin yrði staðfest, skyldi og gefinn út sérstakur konungsúrskurður, þar sem ákveðið væri, að ísl. sérmál skyldi borin upp í ríkisráðinu, sem að undanförnu, og að á þessu mætti svo alls enga breytingu gera, nema samþykt hefði verið og staðfest af konungi — sambandslög, þ. e. lög um ríkisréttarsambandið milli landanna Danmerkur og Íslands, er aðra skipan gerði.

Ég feldi mig illa við þetta — ekki að vísu við það, að ákveðið var að málin skyldi eftir sem áður borin fram í ríkisráðinu, því að við því höfðu allir þingmenn búist, heldur við hitt, er ákveðið var að svo skyldi standa, unz sambandslög yrði staðfest.

Eins og kunnugt er, vakti það eitt fyrir þinginu, er ríkisráðsákvæðið svo nefnda var felt burt úr stjórnarskránni, að þingið vildi á þann hátt — sýnandi, að engin nauðsyn væri það í sjálfu sér, að sérmál Íslands væru borin upp fyrir konunginum í ríkisráðinu — vildi á þann hátt leggja áherzlu á það, að af sérmálum Íslands væri dönsku ráðherrunum alls engin afskifti ætlað að hafa, og þenna skilning á þýðingu úrfellingarinnar kannaðist danski forsætisráðherrann og beinum orðum við á ríkisráðsfundinum 20. okt. 1913, og kvað dönsku ráðherrana og mundu haga sér því samkvæmt, — þ. e. tjáði þá eigi munda blanda sér á sérmál Íslands.

Á þenna hátt er það þá og fengið, sem alþingi vildi, og þá skiftir oss það að sjálfsögðu engu, þótt sérmál vor sé nú borin upp fyrir konunginum í ríkisráðinu, — dönsku ráðherrarnir þar þá eigi nema sem áheyrendur, að því er til sérmála vorra kemur. —

Á hinn bóginn getum vér Íslendingar þó auðvitað eigi látið oss lynda, að það sé lagt á vald danska löggjafarvaldsins, hve lengi svo skuli standa.

En því verður ekki neitað, að verði væntanlegur konungsúrskurður, eins og gert er ráð fyrir í opna bréfinu frá 20. okt. síðastl., eða samþykki alþingi stjórnarskrárfrumvarpið óbreytt, án þess skýr mótmæli komi fram gegn því, sem „opna bréfið“ fer fram á, þá er sérmálasviðið þrengt, réttur vor skertur og málunum svo komið, að sérmál vor verða einatt borin upp í ríkisráðinu, án þess vér getum nokkra breytingu á því gert, fyrr en sá tími kemur, er ríkisþing Dana samþykkir lög um ríkisréttarsambandið milli landanna Danmerkur og Íslands, — með öðrum orðum: þetta alíslenzka sérmál, uppburður sérmálanna fyrir konunginum, það er þá eingöngu orðið háð vilja danska löggjafarvaldsins.

Það má nú að vísu ef til vill segja, að „factiskt“ hafi þetta ekki mikla þýðingu, en »formelt« og »juridiskt« (þ. e. frá formlegu og lögfræðislegu sjónarmiði) hefir það þó stórmikla þýðingu, þar sem íslenzkt sérmál er þá þannig lagt á vald danska löggjafarvaldsins, vilji þess orðinn einráður, en eigi vilji vor sjálfra.

Á hinn bóginn var mér það þó ljóst, að þetta mætti ekki verða til þess, að stjórnarskrárbreyting síðasta alþingis, sem hefir í sér fólgnar margar og mjög mikilsverðar réttarbætur, sem ekki mega dragast — næði ekki fram að ganga, og því verður að gera það tvent: að gera alt til þess að Stjórnarakrárbreytingin fái framgang nú á þinginu, og jafnframt að sjá svo um, að réttur vor verði þó ekki á nokkurn hátt skertur.

Eg get nú ekki séð, að ekki sé hægt að búa svo um hnútana, að ákvæði »opna bréfsins« 20. okt. 1913 verði oss ekki til baga, eða að það verði vankvæðum bundið að fá stjórnarskrárfrv. staðfest, þó að vér mótmælum ákvæðum þess, — látum þess getið, að samþykt stjórnarskrárfrumvarpsins á þinginu í sumar megi á engan hátt skilja á þá leið, að vér þar með göngumst undir það, sem í »Opna bréfinu« segir.

Það er ljóst, að það tvent hefir fyrir konunginum vakað, er konungsúrskurðurinn frá 20, okt. síðastl. var gefinn út : 1. að málin skyldi borin upp í ríkisráði, og 2. að þetta ætti að vera »stabil« ákvörðun, þ. e. ákvörðun, sem ekki væri altaf verið að breyta.

Hitt, þ. e. að vilja á nokkurn hátt skerða réttindi lands vors, það hefur fráleitt fyrir konunginum vakað. En tímatakmark varð að setja, að hans skoðun, og þá lá það eðlilega nær en alt annað, að benda þá á sambandslögin, þ. e. að breyting yrði þá þó að sjálfsögðu að gerast, ef í þeim yrði ákvæðið, er til kæmi.

Eg sé því eigi neina ástæðu til þess að væna Hans hátign konunginn þess, að hann muni synja stjórnarskrárfrumvarpinu staðfestingar þótt þingið jafnframt því að afgreiða stjórnarskrárfrumvarpið óbreytt, samþykki þingaályktunartillögu, þar sem skorað er á ráðherra að búa svo um hnútana, að í engu ærði skert réttindi landsins.

Í þingsályktunartillögunni, sem og í konungsúrskurðinum, er staðfestingu stjórnarskrárfrumvarpsins fylgir, verður þá og að sjálfsögðu að láta þess getið, að þó að þingið samþykki stjórnarakrárfrumvarpið, megi þó eigi skilja samþykt þess á nokkurn hátt svo, sem það (?:þingið) vilji að nokkru leyti binda sig við eða fallast á það, sem haldið er fram í opna bréfinu frá 20. okt. 1913.

Ráðherra á síðan að ganga svo frá öllu, eins og þingið býr honum í hendur — og setja þá auðvitað stöðu sína að veði, svo að ekki sé réttur landsins á nokkurn hátt skertur.

Ég fæ því ekki séð, að það sé annað en óþarfa grýla, að nokkuð ilt geti leitt af því — eins og ótæpt hefir þó verið gefið í skyn nú undanfarið, þótt þingið komi einarðlega fram og búi málið svo í hendur ráðherranum, sem nú hefir sagt verið.

Og ef það er gert, þá hefir þingið þó efnt loforðin, sem þjóðin með réttu telur sér hafa gefin verið, og stendur þá og að mun betur að vígi á eftir, hvernig sem alt, gegn von vorri, kynni að snúast.

Að lokum get eg bætt því við, að ég get vel skilið, hvers vegna hæstv. ráðherra hefir gengið að því, að sérmálin skyldi borin upp í ríkisráðinu, og að á því mætti enga breytingu gera nema ný sambandaslög væri sett, er aðra ákvörðun gerði. Í hans augum hefir það verið aðalatriðið, að Íslendingar myndi eigi æskja slíkra breytinga, og myndi því standa á sama um þetta.

Hann hefir í svipinn eigi gætt þess, að þar sem ný sambandslög geta eigi skapsat nema danska ríkisþingið samþykki, þá var alt þannig lagt á valdi Dana, þ. e. Íslendingar þá eigi framar bærir um það að ákveða einir, með konungi sínum, hvar íslenzku sérmálin skuli borin upp fyrir konunginum.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en óska eins og aðrir, að málið verði sett í nefnd og 1. umr. þess frestað.