06.07.1914
Neðri deild: 4. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

10. mál, afnám fátækratíundar

Pétur Jónsson :

Eg lít svo á, að ekki hafi verið beint nauðsynlegt að koma fram með þetta frumvarp nú, vegna þess að ekki getur langt liðið þangað til tíund á fasteign og lausafé verður algerlega úr lögum numin og nýir gjaldstofnar fengnir sveitasjóðunum. Á hinn bóginn get eg ekki verið á sömu skoðun sem háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.), að nokkur eftirsjá sé í þessum ómerkilegu leifum af tíundarstatútu Gizurar biskups. Því að þótt hún væri viturleg og líklega einsdæmi í veröldinni á þeim tíma, þá eru þessar leifar ekki nema svipur hjá sjón samanborið við það, sem hún var sjálf, svo miklum breytingum hefir tíundin tekið. Upphaflega var tíund Gizurarstatútu hreinn eignarskattur í nútímastíl. Nú er tíundin sem eftir er lítilfjörlegur atvinnuskattur og ójafnaðarfullur. Eg held, að Gizuri biskupi væri mestur sómi sýndur með því að nema hana úr lögum.