13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

47. mál, umboðsstjórn Íslands

Flutn.m. (Guðmundur Eggerz):

Eins og frv. ber með sér, fer það fram á, að eftirlaun ráðherra verði afnumin, jafnframt því, sem nýju stjórnarskipunarlögin ganga í gildi. Þetta mál hefir áður verið á dagskrá hér í þinginu, en strandaði á því, að menn töldu ekki unt að koma því fram nema með stjórnarskrárbreytingu. Þetta frumv. er flutt nú vegna framtíðarinnar. Því að það má telja líklegt, að hér fari eins og annarsstaðar, að stjórnarskifti verði tíð, og þá geta ráðherraeftirlaunin orðið mikill baggi fyrir landið, einkum þegar tillit er tekið til þess, að í stjórnarskrárfrv. því, sem nú er á ferðinni, er fjölgun ráðherra heimiluð með einföldum lögum. Það er ekki lítil fúlga, sem ungur maður fengi í eftirlaun, ef hann yrði ráðherra og lifði t. d. 30 ár eftir að hann léti af embættinu. 3000 kr. í 30 ár eru 90,000 kr. án þess að reiknaðir sé vextir og vaxtavextir. Það hefir verið sagt, að ósanngjarnt væri að afnema eftirlaun ráðherra, úr því að aðrir embættismenn hafi eftirlaun. En því er til þess að svara, að ráðherrar sitja venjulega stuttan tíma, og í öðru lagi má taka tillit til þess, að nú er uppi á teningnum, að afnema eftirlaun allra embættismanna, og sé eg ekki, að embættismennirnir þurfi að sjá svo mjög eftir eftirlaununum, úr því að almenningur lítur með svo mikilli óánægju á þau sem hann gerir.

Þá hefir það og verið borið fram á móti þessu máli, að ekki mundi verða hægt að fá hæfa menn til þess að gegna ráðherraembættinu, ef eftirlaunin væri afnumin. Eg get ekki fallist á, að þetta hafi við nokkur rök að styðjast. Eg hygg, að enginn taki að sér að verða ráðherra vegna eftirlaunanna. Og þeir menn, sem í ráðherrastöðu komast, munu venjulega hafa það álit á sér, að þeim verður ekki skotaskuld úr því að hafa ofan af fyrir sér eftir að þeir hafa mist ráðherratignina.

Eg sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um málið. Það er svo einfalt, að þess gerist ekki þörf. Eg hafði hugsað mér, að nefndarkosning væri óþörf, en nú sé eg, að breyt.till. er komin fram frá háttv. þm. Ak. (M. Kr.) og verð eg þá að leggja til, að 5 manna nefnd verði kosin til þess að íhuga þá tillögu, þó að eg fyrir mitt leyti sjái ekki neina ástæðu til að taka hana til greina.