27.07.1914
Neðri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

47. mál, umboðsstjórn Íslands

Framsögum. minni hl. (Þórarinn Benediktsson):

Hv. þm. Dal. (B. J.) hefir tekið fram flest það, sem eg vildi sagt hafa. En út af því, sem háttv. framsögum. meiri hlutans (E. A.) sagði, að það væri ekki mikið, sem á milli hefði borið í nefndinni, vildi eg segja nokkur orð. Það getur nú verið, að í raun og veru sé það ekki svo mikið, sem bar á milli meiri og minni hl. nefndarinnar, en það er þó það, að í stað þess, að meiri hlutinn vill láta ráðherra njóta eftirlauna í tvö ár, vill minni hlutinn afnema ráðherraeftirlaun með öllu þegar í stað og síðan öll önnur eftirlaun. Það ber auk þess á milli í þessu máli, að tillögur minni hlutans eru bygðar á öðrum grundvelli en till. meiri hlutans. Að tillögur meiri hlutans geti orðið byrði fyrir þjóðfélagið, skal ósagt látið, en þó skilst minni hl., að svo geti þó orðið, ef margir ráðh. eru samtímis á eftirlaunum. En ekki er ólíklegt að svo verði, einkum ef fjölga þarf ráðherrum eina og búast má við að verði innan skamms. Að þessu er vikið í áliti minni hlutans. Skal eg svo ekki fjölyrða um þennan ágreining í nefndinni. Eg skal taka það fram, að minni hlutinn hefir ekki skapaðan hlut á móti því, að 2. og 3. liður breyt.till. nái fram að ganga, að efni til. Þó skal bent á það, að 3. liður breytingartillögunnar getur naumast staðist, ef frumv. á þskj. 69 verður samþykt óbreytt. Það er aðeina 1. liðurinn, sem minni hlutinn getur ekki fallist á. Háttv. þm. Ak. (M. Kr.) lagði heldur lítið upp úr þjóðarviljanum í þessu máli. Því verður þó ekki mótmælt, að það hefir á seinni tímum risið sterk alda í þá átt að launa starfsmönnum þjóðarinnar sæmilega fyrir störf þeirra, en fella niður launin þegar þeir láta af störfunum. Þessa stefnu telur minni hluti nefndarinnar fyllilega réttmæta og á rökum bygða. Eg gat þess áðan, að flestar þingmálafundargerðir síðastliðið vor krefjast þess eindregið, að ráðherraeftirlaun verði afnumin, og sumar ganga jafnvel enn þá lengra og vilja, að öll eftirlaun verði úr lögum numin. Eg get ekki verið samdóma þeim mönnum, sem ekki vilja taka tillit til vilja þjóðarinnar í þessu efni, þar sem hann hefir verið mjög eindreginn og ákveðinn í þessu máli á undanfarandi árum.