06.08.1914
Neðri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

15. mál, sveitarstjórnarlög

Framsögum. (Matthías Ólafsson):

Það er misskilningur hjá háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.), að nefndin hafi flaustrað nefndarálitinu af. (Guðmundur Eggerz: Það var samið á tveimur mínútum). Það er af því að nefndin er fljótvirk, en háttv. þm. (G. E.) verður að gæta að því, að hún er vandvirk að sama skapi.

Háttv. þm. (G. E.) gaf nefndinni þessar sömu skýringar og hann hefir nú gefið háttv. deild. En nefndin gat þá ekki frekar en nú fallist á breyt.till. hans, með því að hún áleit frumv. svo gott eins og það kom frá Ed., að því væri ekki stofnandi í tvísýnu með því að gera á því ekki þýðingarmeiri breytingu, en hann fer fram á.

Háttv. þm. (G. E.) segir, að það sé upp og niður hvernig síldin gangi, eitt árið sé hún á þessum firðinum og annað á hinum. En hann gætir ekki að því, að þetta mælir einmitt á mót br.till. hans. Ef síldin væri alt af á sama firðinum væri miklu meiri ástæða til að leyfa mönnum að sækja sér þangað slatta og slatta af síld, án þess að þurfa að greiða útsvar fyrir það. En úr því að áraskifti eru á því, hvar síldin er, þá kemst meiri jöfnuður á, einn hreppurinn hefir tekjur af síldinni þetta árið, annar hitt.

Þeir sem síldveiði stunda hafa venjulega stórkostlegan hag af því. Það kemur oft fyrir, að menn ausa á stuttum tíma upp úr sjónum síld svo nemur þúsundum króna. Væri því leitt, ef sá hreppur, sem þeirra auðæfa er aflað í, fengi engar tekjur af því. Þetta var nefndinni ljóst, og var það því af ráðnum hug, að hún ásetti sér að leggja á móti þessari breytingu, að færa útsvarsskyldu þeirra manna, er síldveiði stunda með nót, undir ákvæði 2. gr. frumv. Það má reyndar segja, að ekki sé ástæða til að leggja útsvar á þá menn, er ekki veiða nema tvær tunnur af síld, og ef háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) hefði komið fram með breyt.till. um að undanskilja þá menn, þá .hefði það verið sök sér. En þess er að gæta, að útsvarið fer vitanlega eftir því, hvað veiðin er mikil, svo að það verður aldrei sú upphæð, er nokkru nemi, sem þeir þurfa að gjalda, er einar tvær tunnur veiða. Þess er líka að gæta, að engin lagaákvæði eru svo úr garði gerð, að þau sé sanngjörn í öllum hugsanlegum tilfellum.

Þá sagði háttv. þm. (G. E.), að síld væri venjulegast veidd að eina til beitu. Þetta getur satt verið, að svo sé sumstaðar á landinu. En þá er aðgætandi, að hvergi borgar nótveiði sig eins vel og þar, sem síldin er seld til beitu. Eg þekki ekki það verð á síld, sem seld er til útlanda, að það jafnist á við það verð, sem fæst fyrir beitusíld. Á Vesturlandi kostar tunnan stundum 30–40 kr., og mjög sjaldgæft, að hún sé undir 24 kr.

Þrátt fyrir undirdóminn, sem háttv. þm. (G. E.) nefndi, þá skil eg ekki, að það geti verið vafamál, að núgildandi lög ætlast til að útsvar megi leggja á síldveiðimenn, hvað stuttur sem veiðitíminn er. Háttv. þm. (G. E.) segist hafa spurt einhvern bezta lögfræðing landsins, sem mér skildist vera einhver annar en hann sjálfur, um þetta atriði, og hann hafi litið á það eins og undirdómarinn. En samt sem áður fæ eg ekki séð, að þetta megi misskilja, og skil ekki, að eg væri það skilningssljórri þó að eg væri lögfræðingur, að mig henti sú villa, að misskilja það.

Eg hefi svo engu við þetta að bæta. Eg vona, að breyt.till. verði feld, en frumv. verði samþykt óbreytt. Eg vil þó vekja athygli háttv. breytingartill.flutningsm. (G. E.) og háttv. deildar á einu atriði, og það er það, að ef br.till. verður samþykt, þá er við því að búast, að frumv. í heild sinni nái ekki fram að ganga. Eg hefi átt tal við mann úr Ed., og hann taldi mjög efasamt, að frumv. gengi aftur gegnum þá deild, ef nokkur breyting væri gerð á því. En það álít eg skaða og til alt of lítils að vinna, að hleypa frumv. til skipbrota með því að samþykkja þessa breytingartillögu.