08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

113. mál, kosningar til Alþingis

Framsögum. meiri hl. (Einar Arnórsson) :

Nefndin hefir klofnað um þetta mál, en eg held að eg megi fullyrða, að hún sé að eins ósamdóma um eitt einasta atriði, 7. gr. frumv., og hefir hvor hluti nefndarinnar um sig gert grein fyrir sínu áliti.

Um kosningalög þessi er í rauninni ekki margt að segja. Það er ekkert stórmál, sem hér liggur fyrir, aðallega eina konar samsteypa, »Kodification«, af fernum eldri lögum, 18. gr. laga 14: sept. 1877, lög 3. okt. 1903, með tvennum viðaukalögum, öðrum frá 1909 og hinum frá 1913. Og ákvæði þessara laga eru orðin nokkuð reynd og kunn, svo að nefndin hefir ekki þurft að gera neinar verulegar breytingar á þeim.

Aftur á móti eru ný ákvæðin um landskosningarnar og enn fremur er 3. kafli frumv. nýr, um atkvæðagreiðslu sjómanna.

Eg skal geta þess, að nefndin hefir orðið ásátt um að taka 3. kaflann út úr frumv., og bera hann upp sem sérstakt lagafrumv., þó með þeirri breytingu, að ákvæði hans nái ekki eingöngu til sjómanna, heldur og til allra þeirra manna sem staddir eru utan þess kjördæmis, þar sem þeir standa á kjörskrá, þegar kosning fer fram. Ástæðan til þess að nefndin hefir lagt til að 3. kaflinn verði tekinn út úr frumv. er sú, að vér vissum ekki hvernig stjórnarskránni mundi reiða af, en vér vildum ekki gera kaflann um sjómannakosningarnar háðan afdrifum stjórnarakrárinnar, því að vér teljum nýmæli þetta svo mikla réttarbót, að ekki megi dragast að afgreiða það. Ákvæði þess ætlumst vér til að verði notuð, enda þótt svo fari, að stjórnarskrárfrumvarp það, er nú liggur hér fyrir, yrði ekki afgreitt héðan, eða þó að því yrði synjað konungsstaðfestingar. Hins vegar taldi nefndin rétt að búa þetta frumv., um kosningar fjarverandi manna, svo úr garði, að það tæki líka til hlutfallskosninga, til landskjörs þingmanna, ef á þyrfti að halda, svo að eigi þurfi síðar að fara að breyta lögunum í því skyni.

Af því að meiri hluti nefndarinnar hefir lagt til, að 7. gr. verði feld burt og þar af leiðandi, að núverandi kjördæmaskipun haldist, leiðir það, að ýmsar smábreytingar verður að gera á frv., sem þó eru aðallega «redaktions» breytingar. Verði aðalbreytingin, um burtfellingu 7. gr., samþykt, má væntanlega telja allflestar breyt.till, á þgskj. 372 samþyktar án atkvæðagreiðslu.

Eg býst við, að menn hafi lesið brt. og borið þær saman við frumv., og eg sé því ekki ástæðu til að eyða tímanum með lengri ræðu að þessu sinni, enda er nú dýr hver stundin, þar sem ekki eru eftir nema fáir dagar af þingtímanum.