22.07.1914
Neðri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

75. mál, sparisjóðir

Stefán Stefánsson :

Á síðasta þingi var til meðferðar frumvarp um sparisjóði frá stjórninni, og var það mjög sviplíkt þessu. Þá höfðu allmargir þingmenn hér í deildinni ýmislegt við það að athuga og var eg einn á meðal þeirra, enda fór svo, að frumvarpið var felt með nokkrum atkvæðamun. Á þingmálafundum nú í vor, var mönnum kunnugt um það, í það minsta í Eyjafjarðarsýslu, að frumvarpið um sparisjóði yrði enn lagt fyrir þingið, af landsstjórninni, og vegna þess hreyfði eg málinu á þingmálafundum í mínu kjördæmi og komu fram, næstum undantekningarlaust á hverjum fundi, eindregin mótmæli gegn því, að sviplíkt frumvarp því, sem var til meðferðar á síðasta þingi, yrði gert að lögum.

Þetta frumv. sem nú liggur fyrir, er í öllum aðalatriðunum eins og frumv. það, sem eg áður gat um. Nú hefir svo farið, að öll nefndin, sem skipuð var í málið, er einhuga um að leggja til að gerðar sé allverulegar breytingar á frumvarpinu, og án þess að fara nokkuð út í þær breytingar sérstaklega, þá hygg eg, að þær miði þó allar til þess að gera frumvarpið aðgengilegra, hvað rekstur sparisjóðanna snertir alment.

En viðvíkjandi því, sem veldur aðallega ágreiningi í nefndinni, þ. e. skipun umsjónarmanns sparisjóða, skal eg geta þess að það var alment álit, þar sem málinu var hreyft á þingmálafundum í Eyjafirði, að slík umsjón eða eftirlit væri algerlega óþarft, ekki sízt þegar um litla sparisjóði er að ræða. Þegar Sparisjóðirnir eru orðnir 100 þús. kr. eða þar yfir, þá fyrst álítur minni hluti nefndarinnar nokkra verulega ástæðu til slíks eftirlits frá stjórnarinnar hálfu. Eg hefi ekki viljað hafa beint á móti því, að þegar sjóðirnir eru orðnir svo stórir, að þeir nema 100.000 kr., þá sé slíkt eftirlit frá stjórnarinnar hálfu viðtekið ef sérstakar ástæður eru þá fyrir hendi, svo að það verður að teljast nauðsynlegt.

Að eg skrifaði undir nefndarálit minni hl. með fyrirvara, var út af ákvæðinu í 9. gr. frumvarpsins. Öðrum en mér í minni hl. fanst það ákvæði ekki svo athugavert, að þeim fyndist ástæða til að bera fram breytingartill. við greinina. Ákvæðið er þetta: »Það skal vera aðalreglan, að eigi má greiða neina upphæð úr sparisjóði eða í hann, nema 2 af starfsmönnum hans eða stjórnendum sé viðstaddir«. Þetta kann að vera tryggilegra, en mér dylst á hinn bóginn ekki, að ef þetta verður reglan, þá miðar það mjög til þess að hefta framgang sjóðanna. Það er erfitt í sveitum að fá tvo menn í sparisjóðsstjórn, sem búa svo nálægt hvor öðrum, að þetta ákvæði komi ekki að baga. Og það verð eg að segja, að ef menn bera ekki það traust til gjaldkerans, að óhætt sé að trúa honum einum til þess að afgreiða 50–100 kr., þá er hann ekki fær um að vera gjaldkeri. En fyrsta og helzta skilyrðið fyrir hvern sparisjóð er að tryggja sér verulega góðan mann sem gjaldkera. Hann verður bæði að vera reglusamur og strangur með, að öllum ákvæðum um greiðslur í sjóðinn og um tryggingar sé fylgt.

Sömuleiðis er mjög athugavert það ákvæði greinarinnar, að kvittanir sé ekki skuldbindandi fyrir sjóðinn, sem féhirðir einn undirskrifar, heldur þurfi til þess líka undirskrift bókara.

Þá er það einnig ákvæðið í 13. gr. frumv., sem eg felli mig ekki vel við. Þar er sagt, að sjálfskuldarábyrgðarlán megi ekki veita nema í lengsta lagi til eins árs, en um leið er sagt, að þau megi aldrei eldri verða en 10 ára. Þetta er dálítið hjáleitt og óljóst. Hitt væri langtum gleggra og ákveðnara fyrir lántakandann að vita nákvæmlega, til hvað margra ára hann fær lánið og hvað hann verður að borga mikið af því árlega, en að veita honum lánið til eins árs, og láta hann þó fá óljóst hugboð um það um leið, að hann megi hafa það til 10 ára. Eg gat um þetta í nefndinni, en henni virtist ekki nauðsynlegt að breyta þessu ákvæði.

Hvað því viðvíkur, að það sé af handahófi, að miða eftirlitið við 100.000 kr. inneign sparisjóðanna, þá er því til að svara, eins og háttv framsögumaður minni hl. (G. H.) tók fram, að sparisjóðirnir eru sennilega því tryggari því minni sem þeir eru, og að sama skapi hægara að fá yfirlit yfir allan hag þeirra. Meðan sjóðirnir eru litlir, er ofurlétt að fara í gegnum allar tryggingar þeirra á aðalfundi. Þetta er aftur erfiðara þegar sjóðirnir eru orðnir svo stórir, að þeir nema 100 þús. kr. eða meira. En meðan þeir eru neðan við 100.000 kr. því fremur því minni, sem þeir eru, þá er fljótfarið fyrir nákunnuga gegnum allar tryggingar sjóðanna. Að minsta kosti er þessu svo farið um þann sparisjóð, sem eg þekki bezt, enda er hann ekki nema rúmar 20 þús. kr. En hann má vaxa að miklum mun til þess að slík rannsókn eða athugun verði ekki hægðarleikur á aðalfundi.

Eftir þessari reynslu minni álít eg, að það muni ekki vera ókleift, þó að sjóðirnir væri orðnir alt að 100.000 kr.

Eg hygg, að það sé yfirleitt ósk manna að fjárhald hvers sparisjóðs sé sem mest á valdi þeirrar sveitar, sem fé á í honum, og að það opinbera sé ekki að skifta sér af því oftar né meira en brýn nauðsyn krefur.

Reynslan hefir verið sú hingað til, að sparisjóðirnir hafa ekki tapað fé, svo nokkru nemi og forstaða þeirra og alt eftirlit verið í mjög góðu lagi yfirleitt, en þó um leið afar kostnaðarlítið, svo að nauðsynin sýnist alls ekki brýn hvað flestar eða jafnvel allar þessar frumvarpsbreytingar snertir.

Eg hygg þess vegna, að þingið geri réttast í að leggja enga áherzlu á eftirlitið með smásjóðunum, því að það hlýtur að reynast óþarfi í framkvæmdinni.