22.07.1914
Neðri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

75. mál, sparisjóðir

Framsögum. meiri hl. (Sveinn Björnsson):

Eg skal ekki lengja umræður nema sem minst. Eg er ánægður yfir því fyrir hönd meiri hl., að mér skilst svo á flestum ræðumönnum, að þeir telji hann stefna rétt í brt. sínum.

Það þýðir því ekkert að fjölyrða um þau einstök atriði, sem ekki er ágreiningur um. Þó skal eg leyfa mér að minnast á eitt eða tvö smáatriði.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) og háttv. umboðsm. ráðh. (Kl. J.) skoðuðu það báðir óþarft að nema burtu hlutafélagahugmyndina. Mér skildist svo, sem þeir væri sammála um það, að enginn munur væri á því, hvort sparisjóðir væri hlutafélagseign eða að tekin væri ábyrgð á svo og svo mikilli upphæð, þegar stofnunin er sett á laggirnar, eins og víða á sér stað. Eg verð nú samt að halda því fram, að greinarmunur sé nokkur á þessu. Hlutafélög eru fyrst og fremst fjárgróðafyrirtæki, en sparisjóðir eru venjulega nokkuð annað og »ideellara«. Í hlutafélögum má gjöra ráðstafanir til þess, að meiri hlutinn af hagnaðinum renni beint í vasa hluthafanna, ef vel gengur, t. d. með því að auka hlutafjárstofninn að nafninu einu, án þess að innborga hlutafé o. s. frv., en þetta er ekki hægt með hinu fyrirkomulaginu, og tek eg þessi dæmi að eins til þess að skýra muninn.

Margir hafa talað um, að það sé óheppilegt í 9. gr. að binda allar greiðslur við undirskrift tveggja manna. Það var nú talað um það í nefndinni, að kvittun eins manns úr stjórninni ætti að nægja, en meiri hl. áleit, að af þessu myndi ekki stafa það óhagræði, að nauðsyn væri á breytingum þess vegna. En ekki er mér þetta neitt kappsmál, og svo hygg eg sé með fleiri í nefndinni.

Þá skal eg minnast á 13. gr. Eg skal þegar geta þess, að mér skildist á háttv. umboðsm. ráðh. (Kl. J.), að hann álíti það óheppilegt hjá meiri hl., að fella burtu ákvæðið um víxla og sjálfskuldarábyrgðarlán. Eg verð nú að álíta, að eins og það ákvæði kemur fram hér í frv. stjórnarinnar, þá sé tryggingin ekki meiri. Það væri hugsanlegt að orða þetta á annan hátt, t. d. þannig, að svo og svo mikill hluti lánanna skuli ætíð vera trygður með 1. veðrétti í fasteign. Þetta ákvæði á að fella burtu, en svo getur verið spurning um það, hvort ekki ætti að setja önnur sérstök tryggingarákvæði í staðinn, og sé það gjört, þá ætti þau að ganga í svipaða átt og eg gat um áðan.

Út af því, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) o. fl. hafa sagt um framlengingu lána, að hreinlegra sé að veita þau til langs tíma, með ákveðnum árlegum afborgunum, er það að segja, að það er nú orðin tízka að veita þau ekki nema til skamms tíma og endurnýja þau þá heldur, ef kringumstæður eru óbreyttar. Þær geta altaf breyzt, og þá er bezt að geta sagt upp, ef á þarf að halda.

Þá skal eg víkja með örfáum orðum að eftirlitsmanninum. Eg get ekki fallist á, að það sé fullkomlega á rökum bygt, sem háttv. framsögum. minni hl. (G. H.) sagði til stuðnings till. minni hl. í því efni. Hann tilfærði hitt og þetta sem ástæður, og áleit að eftirlitsþörfin væri ólík eftir því, hvort sjóðirnir eru stórir eða litlir. Það getur nú verið, en það er eins og ekki sé tekið nóg tillit til þess við þessar umr., eftir hverju þessi maður á að líta. Það er eins og menn haldi, að hann eigi að athuga það eitt, hvort nógu góðir menn atandi á bak við skuldabréfin. En það er langt frá því að þetta sé alt verk hans. Það er gjört ráð fyrir því, að stjórnarráðið ákveði alveg fastar reglur um það, hvernig sparisjóðir eiga að starfa, og búi þeim til fyrirmyndir að skjölum og bókum o. a. frv. Ef sparisjóðirnir hefði ekki vit á að fylgja þeim reglum, eða mætti trassa það, þá væri til lítils að vera að setja þessi lög. Og hvar á að fást vissa fyrir því, að þeim verði fylgt? Það á einmitt að vera eitt aðalhlutverk eftirlitsmanns, að gæta þess, og í því felst aðaltryggingin. Það þyrfti ekki að semja mikinn lagabálk til þess eins, að fá lítið eftir tryggingum einstakra lána. Þessu virðast mér háttv. þm. ekki hafa tekið eftir, og þegar um það er að ræða, að koma föstu og samskonar fyrirkomulagi á alla sparisjóði í landinu, þá er sama þörfin til þess, hvort sem þeir eru stórir eða smáir. Hér er því veila í hugsun háttv. 1. þm. Hún. (G. H.).

Það er auðvitað, að þetta gæti gengið með litla sjóði, ef góðir menn standa að þeim og gæta þeirra. En ef nú mennirnir, sem að þeim standa, eru ekki góðir eða gæta þeirra illa? Hvað þá? Spurningin er: Er þörf á að setja þessi ákv.? Ef svo er, er þá ekki líka þörf á að sjá um að þeim sé fylgt? Þegar vér setjum einhver lög, þá gerum vér það með því augnamiði, að farið sé eftir þeim í öllum greinum, og til þess er nauðsynlegt að hafa eftirlit.

Hvað það snertir, að ekki muni vera hægt að fá hæfan mann í þessa stöðu fyrir svo lítil laun, þá skal eg geta þess, að þetta kom til tala í nefndinni, og þótti oss fyrst 3000 kr. laun hæfileg, en af því að vér bjuggumst við að maðurinn myndi verða á dagpeningum mikinn hluta ársins, þá þótti oss ekki ástæða til að breyta þessu. Eg skal fúslega viðurkenna, að mér finst viðkunnanlegra, að láta eftirlitsmanninn hafa föst laun, en láta hann aftur ekki fá neina dagpeninga þegar hann er á ferðalagi, og eg vona að meiri hlutinn gæti fallist á tillögu þess efnis, ef hún kæmi fram.