29.07.1914
Neðri deild: 24. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

75. mál, sparisjóðir

Bjarni Jónsson:

Það er raunar óþarfi fyrir mig að standa upp, því að málið hefir þegar verið rætt mjög rækilega. Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir rakið til hlítar með skýrum rökum öll atriði málsina, og svarað þannig fyrirfram ýmsum mótbárum, sem síðan hafa komið fram og á litlum rökum hafa verið bygðar.

Eg skal ekki viðhafa nein hnýfilyrði, bæði fyrir það, að eg hefi í þetta skiftið verið látinn með öllu hlutlaus, og svo eru þeir menn gengnir veg alls holds, sem eg annara mundi helzt kjósa að beina hnýfilyrðum að í dag. Eg skal því vera mjög spakur.

Þetta, sem sagt var, að eg og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefðum áður verið á móti öllu eftirliti með sparisjóðunum, var algjörlega gripið úr lausu lofti. Eg hélt því þvert á móti fram, að einn eftirlitsmaður væri ófullnægjandi, einkum þar sem kaup hana væri áætlað svo lágt, að ekki væri viðhlítandi. Eg hefi aldrei haft neitt á móti því, að eftirlit væri haft með sparisjóðunum, svo framarlega, sem því væri ekki þannig hag að, að það gerði þeim eigi of erfitt fyrir, t. d. eins og ákvæðið það, að tveir menn úr stjórninni skuli jafnan undirskrifa hvert skjal, sem nokkurt gildi á að hafa. Þetta telja menn í sveitum óframkvæmanlegt og kjósendur mínir í Dalasýslu hafa beðið mig að sporna við því, að slíkt ákvæði yrði sett. Það get eg gert með góðri samvizku. Aftur á móti hygg eg, að enginn maður hafi neitt á móti eftirlitinu sjálfu. Það mundi miklu fremur verða vel þegið. En ef einn maður á að hafa á hendi eftirlitið með öllum sparisjóðum á landinu, og ef nokkur trygging á að vera fyrir því, að það verði sæmilega af hendi leyst, þá verður kostnaðurinn eflaust margfalt meiri en stjórnin tók á sitt frumv. Það er alveg óhugsandi, að nokkur maður kæmist af með það kaup, sem þar er tiltekið, því að til þess að koma því upp í 2700 kr. þyrfti hann að vera 300 daga á ári á ferðalagi.

Ef till. okkar háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) gengi fram, að eftirlitsmaður væri skipaður í hverri sýslu, yrði eftirlitið bæði miklu tryggara og um leið margfalt ódýrara. Kostnaðurinn við það yrði svo hverfandi, að sparisjóðirnir mundu ekki telja það eftir sér að greiða hann allan eins og hann legði sig. Landssjóður þyrfti ekkert fram að 1eggja. — Því hefir verið haldið fram, að ekki væri hægt að fá eftirlitsmenn í sýslunum, sem ekki væri vandabundnir stjórnum sparisjóðanna. Þetta er talað út í loftið. Menn eru ekkert fremur skyldir innanhéraðsmönnum en utanhéraðsmönnum, þó að það geti hugsast, að einn eftirlitsmaður ætti ekki einsmargt skyldfólk og hinir allir. En eftir þessum hugsanagangi ætti ekki að vera til nokkurs hlutar að stofna neina trúnaðarstöðu í landinu, því að altaf á sá, sem í stöðuna væri settur einhverja venzlamenn. Vér skulum taka t. d. stjórnina íslenzku og sýslumennina, sem hún á að hafa eftirlit með. Eru ekki sýslumennirnir bræður og mágar þeirra manna, sem í stjórninni sitja?

Ef alstaðar ætti að fylgja þeirri setningu fram, að ekki sé hægt að setja eftirlitsmenn með sjóðunum vegna skyldleika manna, hvernig ættum vér að fara að hafa landsstjórn, þegar svo stendur á, að allir menn á landinu eru náskyldir, svo að ráðherrann getur verið bróðir sjómannsins eða smalans og hvers sem er? Þetta er því bara út í loftið. Þó kom þetta sama fram í ræðu háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.). Hann hélt, að þeir mundi verða vilhallir, þessir endurskoðunarmenn í sýslunum. Eg held þvert á móti, því að þeir sem eiga heima í héraðinu, myndi hafa meiri hvöt til þess að láta alt fara vel í sínum sparisjóði, heldur en alókunnugur maður sendur héðan úr Reykjavík. Hvað lengi, sem þessi eini maður yrði við starfið, yrði hann ekki eins vel kunnugur hverjum einstökum sparisjóði eins og þeir, sem í héruðunum búa. Fyrstu árin yrði hann að öllu leyti að vera kominn upp á upplýsingar þær, sem héraðsbúar gæfi honum. Eg skal benda á, að hinir löggiltu endurskoðendur samkvæmt frumv., sem samþykt var hér á dögunum og nú er í efri deild, eru sjálfkjörnir til þess að hafa eftirlitið með sparisjóðunum. Viðvíkjandi kostnaðinum skal eg minna á, að í þeim lögum stendur, að stjórnarráðið skuli semja þeim verðskrá, svo að enginn þarf að vera hræddur um, að sparisjóðirnir verði harðara úti en þörf er á.

Svo vóru það nokkur smáatriði, sem eg vildi leiðrétta. Háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) sagði, að háttv. l. þm. Árn. (S. S.) hefði talað um reynsluna sem ástæðu. Það er ekki rétt. Það var ekki flutt fram sem ástæða. Ástæðurnar vóru þegar komnar, en svo bætti hann við, að reynslan myndi sýna, að þær væri réttar. Sami háttv. þingm. (Sv. B.) reyndi að vefengja það, sem félagi minn heitinn, háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði, að það væri eins um þennan eftirlitsmann eins og umfang og efni hugtaka, hugtakið yrði því efnisminna, sem það væri umfangameira. Svo kom hann með þessa fyndni um kettina, að enginn köttur hefði 7 rófur, þess vegna hefði einn köttur 8 rófur. Þetta er gömul fyndni, sem ekki er einu sinni hægt að hlæja að, þótt hún væri rétt heimfærð, en því var ekki að heilsa. Aftur á móti var það vel valið dæmi og rétt heimfært, sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) kom með.

Þeir segja líka, að æfingin geri þennan eina mann svo góðan og glöggan, en eftirlitsmennirnir í héruðunum fá líka æfingu. Eða er það svo, að sá almenni einn læri af æfingunni, en hinir ekki? Annars færi illa með stjórnina hér, ef ekki væri til menn í sýslunum, sem færir væri til þess að líta eftir sjóðunum. Þá yrði héruðunum líklega erfitt að útvega sér hæfa menn í sýslunefndir og hreppsnefndir.

Eg sé, að í lögunum eru nefndir bankafróðir menn og verzlunarfróðir. En hvar eru þeir menn? Eru þeir einungis í kaupstöðunum ? Eg býst við, að þá sé alveg eins og engu síður hægt að finna uppi í sveitunum eins og hér.

Svo er talað um, að það fáist ekki gott samræmi í eftirlitið nema sami maðurinn hafi það á hendi. Það er nú gott stundum að hafa samræmi. En það er líka gott það ósamræmi, að eftirlitið sé víða gott en óvíða slæmt, og eins er það ilt, að eftirlitið sé víða slæmt en óvíða gott.

Háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) var að reyna að bera brigður á það, sem háttv. 2. þm. Árn, (E. A.) sagði, að innanhéraðsmenn væri færari um að dæma um tryggingu á lánunum heldur en aðrir. Hvað vel, sem þessi eini eftirlitsmaður væri að sér, myndi hann aldrei þekkja eins vel gildi og verðmæti jarða eins og innanhéraðsmenn. (Sveinn Björnsson: Það er hægt að fá upplýsingar). En eigi að senda þennan eftirlitsmann til þess að fá upplýsingar hjá héraðsmönnum, sem ekki er treyst sjálfum til að hafa eftirlitið á hendi, þá ætti þeir ekki síður að geta tekið þessar upplýsingar hjá sjálfum sér, heldur en að láta þær öðrum í té.