10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

72. mál, hlutafélagsbanki

Pétur Jónsson:

Þessi langa ræða háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) minnir mig á ritgerð eftir sama höfund um Landsbankann frá þeim tíma, þegar verið var að koma Íslandsbanka á stofn. Hann lýsti honum svo þá, að hann væri á svo veikum grundvelli bygður og hættulegum, og fyrirkomulagið svo ófullkomið, að hann gæti ekki lengi staðist. Til allrar hamingju reyndist nú þetta ekki satt, enda höfðir þeir ekki trúað því, sem kunnugir vóru. Svipað hygg eg að verði nú með þessa ræðu, enda ætla eg ekki að svara henni. Það var annað, sem kom mér til að standa upp, og sem kemur málinu við. Það er það, að þörfin fyrir aukningu seðlaútgáfuréttarins er alls ekki þörf bankans, heldur landsmanna. Þetta verður bezt ráðið af samanburði við liðinn tíma, og ef gáð er að, hvað nú er úti af seðlum og hvað úti hefir verið, þá er eðlilegt, að menn verði hræddir um að seðlaakortur verði, og nú er ekki hægt að fá þá frá útlöndum. Þann 31. ágúst í fyrra var úti af seðlum tæp 1.600.000 kr. Nú er ekki svo langt liðið á árið og eru þó fullar horfur á því, eftir því sem hr. Indriði Einarssyni farast orð í síðustu Ísafold í eftirtektarverðri grein, sem eg býst við að háttv. þingm. (B. Kr.) hafi lesið, að horfurnar verði þeim mun verri í ár, að það nemi fyllilega 700 þús. kr. Það sést af skýrslu minni hl., hvernig þetta var í fyrra, en hitt hefir verið upplýst í háttv. Ed. Það sést af þessu, hvort ekki er fullkomin þörf á þessum seðlaútgáfurétti. En ef ræða háttv. þm. (B. Kr.) á nokkuð skytl við frv. og á að gera mönnum grein fyrir því, að Íslandsbanki standi svo tæpt, og honum sé svo illa stjórnað, að varasamt sé, að trúa honum fyrir þessum aukna seðlaútgáfurétti, sem er einungis svo mikill, sem þjóðin þarf endilega á að halda, hvernig stendur þá, á því, að sami háttv. þm. (B. Kr.) trúði þessari stofnun svo vel árið 1901, þegar hún var enn í smíðum, til þess að taka að sér seðlaútgáfuréttinn með þeim skyldum, sem honum fylgja ?