20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Bjarni Jónsson:

Það er að eins örlítil athugasemd. Eg held, að það sé varla vert að fara í orðahnippingar út af þessu. Þó get eg ekki stilt mig um að geta þess, að mér sýnist snúið við málefninu þegar sagt er, að það sé ómagahugsunarháttur, að vilja koma upp sjóði fyrir alt landið til bjargar ef neyð ber að dyrum. Eg vil snúa við setningunni og segja, að það sé öllu fremur ómagahugsunarháttur, þegar hver hreppur er að streitast við að geyma sér fúlgu til vondu áranna. Þó að vel kunni að vera, að Austurland sé ekki hættulega statt fyrir hallæri, þá veit eg ekki betur, en að erfitt hafi verið að troða upp í strompinn á Dyngjufjöllum 1875. Eg sá öskuna, sem þá féll á túnið í Vallanesi, og eg held að ekki hefði veitt af, að þá hefði verið til einhver allsherjarsjóður til að bæta úr því hallæri, sem varð af óviðráðanlegum ástæðum. (Jón Jónsson: Það er betra að eiga sjóðinn sjálfur). Rétt er það; það er betra að eiga sjóðinn sjálfur. En mig minnir nú, að eg af minni fátækt gæfi fáar krónur í samskot austur á land, og það mundi eg enn gera, ef til kæmi, hvort sem væri austur, vestur, suður eða norður. Það getur svo farið, að hallæri fari yfir einn fjórðung, en komi alls ekki við hina. Væri þá ekki gott, að til væri sjóður, sem bætt gæti úr vandræðunum? (Jón Jónsson: Hvað er hallæri?). Eg vil ekki óska þm. hallæris, en eg vænti, að hann sé svo sögufróður, að hann þekki eld og ís og afleiðingar þeirra.

Annars gæti eg talið margt fleira, sem veldur hallæri. Það er t. d. andlegt hallæri, þegar verið er að rífast um, hver eigi að leggja til hjálpina, ef neyð ber að dyrum. — Það var verið að tala um, að þingið mætti vara sig á að taka fé úr einstaklingsvösum. En hvaðan á annars að taka fé, ef ekki úr vösum einstakra manna ? Nema landið ráðist sjálft í eitthvert gróðafyrir tæki. Eg veit ekki betur en að allar tekjur landsins komi úr vösum einstakra manna.

Þá var háttv. framsm. (G. H.) að tala um, að menn mundu verða mér sammála um, að það væri fallegt á pappírnum, að sjóðurinn væri sameiginlegur fyrir alt landið. En annað mál væri, hvort það væri raunhæft. Eg þekki nú svona orð, en eg kann ekki við, að þeim sé dinglað framan í menn, eins og Klaufi gerði við sitt eigið höfuð. Það sem ekki er raunhæft er, að hver hreppur sé að hokra út af fyrir sig. Það getur endað á því, að sjóndeildarhringurinn verði svo þröngur, að hann verði seinast budda einstaklingsins. Annars er þetta um sjóndeildarhring hreppanna ekki gott fyrir oss þingmenn að fara eftir. Það getur verið, að margir hreppar hafi hver sinn sjóndeildarhring, og ef vér sjálfir höfum engan, hvers hrepps sjóndeildarhring ættum vér þá að taka ? Eða ættum vér þá að búa til nokkurskonar meðalverð allra meðalverða úr sjóndeildarhringum hreppanna? — Eg veit, að þm. Árnesinga flytja þetta frv. af því að óánægja með lögin hefir komið fram í þingmálafundum í Árnessýslu. En svo hafa aðrir talað um aðra hreppa, sem eg hefi engin plögg frá, og sjálfur veit eg um marga hreppa, sem eru ánægðir með lögin. Eg er viss um, að engum hreppi hefði dottið í hug að koma með þessa breytingu, ef sjóðurinn hefði frá upphafi verið eign alls landsins. Þá hefði enginn hreppur orðið svo óskammfeilinn að fara fram á að eiga séreign í þessum sjóði. Eg held, að það sé fullkomnasti óþarfi að láta þetta frv. ganga lengra. Þess æfiferill ætti nú að vera á enda, og hann skal verða það, ef eg má ráða. Eg mun ekki ljá atkv. mitt til þess að halda lífinu í þessu skrýmsli.