15.07.1914
Neðri deild: 12. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

22. mál, vegir

Jón Jónsson:

Það er hálfóviðfeldið að vera að fá svona mál inn í þingið. Það gæti haft nokkuð óþægileg eftirköst. Það sem farið er fram á er, að létt verði af þessum héruðum, sem um er að ræða, kjördæmi háttv. flutningsmanns, viðhaldsskyldu þeirri, er á sýslunni hvílir á vegunum austur.

Það sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) taldi helzt mæla með frv., var það, að bifreiðirnar, sem nú er farið að nota talsvert, sliti svo mjög vegunum. Þessi ástæða virðist mér ekki veigamikil, þegar litið er til hagræðisins sem þessi héruð hafa af bifreiðunum. Þær greiða mjög fyrir flutningum frá og til héraðanna, og því virðist ennþá minni ástæða til þess að létta gjaldinu af héruðunum. Þótt eg vilji láta háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) njóta allrar sanngirni, þá álít eg það stórt vafamál, hvort hann er að vinna landinu og landssjóði þarft verk með frv. eins og þessu. Dæmin sýna, að þessi stefna getur verið mjög hættuleg.

Það hafa verið samdir heilir lagabálkar um vegi, síma, skipun prestakalla og læknishéraða. Eg get ekki litið öðruvís á en að með slíkum lagabálkum sé meining löggjafarvaldsins sú, að slá því föstu, að lögin eigi að gilda um nokkuð langan tíma, en ekki eigi að vera að hringla með þau fram og aftur á hverju ári.

Þegar einstakir þingmenn taka upp á því upp úr þurru, án þess að bera sig saman við aðra þingmenn, að koma með tillögur eins og þessa, finst mér þeir vera að spana þingmenn annarra kjördæma, þar sem sömu skilyrðin eru fyrir hendi, til þess að nota tækifærið að koma með samskonar tillögur. Þetta hefir sýnt sig allberlega um meðferð símalaganna. Vér eigum margir ekki annars kostar, en að koma með samskonar frv. Þeir, er frumkvæðið eiga, hljóta að bera ábyrgðina. Málin eru venjulega sett í nefnd, og verður jafnan eitthvert samkomulag, því að í nefndirnar eru kosnir flutningsmenn málanna, sem þá styðja hver annan til að hafa sitt mál fram. Þetta virðist mér vera nokkuð í áttina til þess, sem hér á þingi er kallað hrossakaup. Að þessu er hin mesta spilling, og eg vil gjöra mitt til að aftra henni. Það er altaf verið að tala um sparnað, en eigi maður að gæta allrar sanngirni um einstök héruð, þá er erfitt að koma henni að, þegar svona er í garðinn búið.