15.07.1914
Neðri deild: 12. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

22. mál, vegir

Guðmundur Eggerz:

Mér virðist það illa gert af háttv. þm. Árn. (S. S.) að vera að tefja tíma þingsins með því að koma fram með svona frumv. Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) er altaf að tala um að spara fé landssjóðs og eg skal játa það, að hann er sparnaðarmaður, altaf, nema þegar Árnessýsla á einhvern hlut að máli. Þá er hann ekki hræddur við að henda nokkrum miljónum úr landssjóðnum. Eg hefi séð þingmálafundargerð austan úr sýslum, þar sem skorað er á þingið að veita fé til fyrirtækis, Sem mundi kosta landssjóð nokkrar miljónir, en Árness- og Rangárvallasýsla hefði aðallega not af — en að öðru leyti að fara sem allra varlegast í það að veita fé úr landssjóði.

Annars er það engin sanngirni að viðhaldskostnaðinum sé létt af þessum sýslum, ef ekki á hið sama að gilda um aðrar sýslur landsins. Það hafa engin rök verið færð að því, að meiri ástæða sé til þessa, að því er þessa braut snertir, en t. d. með veginn milli Stykkishólms og Borgarness eða Fagradalsbrautina. Þess ber líka að gæta, að þessar sýslur, sem hér eiga hlut að máli, eru mikið efnaðri og geta því mikið betur staðist slíkan kostnað. En það virðist ákaflega erfitt að gera þeim til hæfis. Eg veit ekki betur en ausið hafi verið út hundruðum þúsunda króna úr landasjóði til þess að leggja brýr og vegi um þessar sýslur. Eg sé ekki eftir því, því að um þarfleg fyrirtæki var að ræða, en það er hart að mæta aldrei öðru en óánægju, vanþakklæti og ennþá meiri kröfum í staðinn.

Háttv. þm. hafa sagt, að Árnesingar hafi minni not af veginum — hann væri aðallega fyrir aðra. Eg hélt að bezt væri, að sem flestir hefði gott af veginum. En að Reykvíkingar eingöngu hafi not af honum, held eg að sé rangt. Eg hefi farið austur og mætt þar bæði hestum, kindum og nautum, sem eg held að hafi komið austan úr sýslum, en ekki úr Reykjavík.