31.07.1914
Neðri deild: 29. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

22. mál, vegir

Sigurður Sigurðsson:

Það er alger misskilningur hjá háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) að setja þetta frv. í samband við Norðurálfuófriðinn. Þessi frv. leggja ekki landssjóði neinar byrðar á herðar á þessu ári. Framkvæmd þeirra kæmi ekki til fyrr en á næsta ári, og vona eg, að þá verði ófriðurinn úti, ef nokkuð verður annars úr honum. Að þessu leyti er því algerlega villandi að setja frv. í samband við Norðurálfustyrjöldina.

Verkfræðingur landsins, Jón Þorláksson, kom á fund nefndarinnar, eftir ósk hennar. Eins og við mátti búast af honum, vildi hann sem minstar breytingar gera á vegalögunum, og félst því ekki á till. meiri hl. nefndarinnar. En það kannaðist hann við, að Holtavegurinn hafi verið illa gerður. Flóaveginn taldi hann betur gerðan, nema lítinn spotta.

Um þetta er eg ekki sammála verkfræðingnum. Meginhluti Flóavegarins var miður vel gerður. Það var aðeins austasti hluti hans, sem var vel frá gengið. En þegar vegurinn var afhentur sýslunni, var hann í illu standi.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) hefir altaf borið grundvöll vegalaganna mjög fyrir brjóstinu. En eg vil benda honum á það, að það er ekki að breyta grundvelli vegalaganna, og í raun og veru er grundvellinum ekki haggað, þótt lagaðar sé auðsæar misfellur á lögunum. Það hefir verið margtekið fram, að það eru hreinustu mistök og ranglæti að kasta upp á sýslurnar viðhaldi þessarra vega. Það var og er vanskapnaður á vegalaga-»principinu«.

Alveg eins er ástatt um Fagradalsbrautina og Stykkishólmsbrautina, að þær eru minna notaðar af héraðsbúum en öðrum, og auk þess er Fagradalsbrautin fjallvegur.

Eg þarf litlu að svara hv. 1. þm. Húnv. (G. H.), það hefir háttv. samþingismaður minn gert. En þar sem háttv. þm. (G. H.) er altaf að vitna í Húnvetningabrautina, sem er ólögð að mestu, þá er umferð um hana og austanveginn ekki sambærileg. Frá almennu sjónarmiði hlýtur viðhaldið að verða miklu meira á austanveginum en vegum nyrðra, sökum veðráttu, umferðar og rigninga. Þetta tvent, umferð og viðhald, ætti að styðja hvað annað. Það gefur að skilja, að þar sem mikil umferð er, þar þarf mikið viðhald.

Ennfremur segir sami háttv. þm. (G. H.), að það geti ýtt undir óviturlegar vegagerðir að kippa burt viðhaldsskyldunni af héruðunum. Óviturlegar vegagjörðir telur hann þær vegagerðir, sem ekki borga sig. Eg er nú sannfærður um, að Húnvetningabraut borgar sig aldrei. Annars er það mjög teygjanlegt hugtak þetta, hvort vegir borgi sig. Oftast er það óbeint en ekki beint, sem vegir borga sig. En hvar eiga nú þessar sýslur, sem á hvílir viðhald margra vega, að taka féð ? Það var alveg rétt hjá hv. 1. þm. S.-Múl. (Þ. B.), að héruðin hafa engu fé úr að spila til að taka að sér viðhald langra vegakafla. En til þess að sýslurnar örmagnist ekki undir viðhaldsbyrðinni verður að sjá þeim fyrir tekjustofni.