11.07.1914
Neðri deild: 9. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

34. mál, friðun fugla og eggja

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Þetta frumv. er borið fram eftir óskum og áskorunum kjósenda minna í Dalasýslu. Þeim er það þyrnir í augum, að örninn var á síðasta þingi friðaður um 5 ára skeið. »Þó að«, segja þeir, »lítið sé um örninn nú, þá viljum vér ekki gjalda viðhald hans með eggjum vorum og lömbum og öðru tjóni, sem hann vinnur oss á hverju ári«. Þetta eru orð þeirra og virðast þau vera mjög svo eðlileg. Eg man, að þegar eg var að alast upp þar fyrir vestan, þá var hafinn félagsskapur gegn ránfuglum og háum verðlaunum heitið fyrir að vinna á erni. Nú í harðindunum í vor hefir örninn drepið lömb unnvörpum, og mér hafa sagt varpmenn, að enginn vargur væri verri í varplöndum en örninn, þó að hann væri ekki sá tíðasti. Hér hefi eg fyrir mér bóndann á Staðarfelli auk annarra, sem þetta mega vel vita.

Nú veit eg ekki, hversu mikla áherzlu menn vilja leggja á hitt atriðið, sem sé það, að hætt sé við að örninn verði aldauða hér á landi, ef ekkert er gert til þess að hindra dráp hans. Eg er ekki svo mjög hræddur um það fyrir mitt leyti, og jafnvel þó að svo færi, þá mundi eg ekki sjá meira eftir erninum en hverju öðru skaðadýri, sem allir telja sér skylt að útrýma, svo sem refnum. Eg hefi ekki næmari tilfinningu en þetta fyrir því, hvaða dýr eru talin íslenzk í dýrafræðinni. Eg skal þó játa, að í skáldskap hefir örninn tignarsæti og er kallaður konungur fuglanna vegna þess, hvað hann er tígulegur á flugi. En hvað sem því líður, verð eg þó að telja það mikilsverðara, að friða eignir manna og lífsviðurværi en örninn. Lömbin hafa líka rétt á sér, og kalla eg það dýr kaup, ef þeim á að fórna hundruðum og þúsundum saman til þess að nokkrir ernir haldist við í landinu.

Eg vil að menn sýni skoðanir sínar á þessu máli á síðari stigum þess, en að nú verði nefnd fengið það til at hugunar. Er mönnum góð biðin til 2. umr. þegar nefndin hefir komið fram með sinar tillögur. Þetta mál kom til atkvæða á þingmálafundi, sem eg hélt í Dalasýslu, en þar vóru samankomnir

kjörnir fulltrúar úr öllum hlutum sýslunnar og vóru allir því mjög fylgjandi. Vona eg að hv. deild sýni þá tillátssemi, að friða frumv. til 2. umr., jafnvel þó að menn þá sjái sér ekki fært að láta það ganga lengra.