10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

113. mál, kosningar til Alþingis

Framsm. minni hl. (Magnús Kristjánsson) :

Eg hafði skrifað upp nokkur þau atriði, er háttv, þm. hafa tekið fram á móti brtill. á þgskj. 451. En háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) hefir nú drepið á flest þau atriði, svo að eg get farið fljótt yfir sögu.

Það kom í ljós, sem eg hafði vikið að á síðasta þingi, en menn þá gáfu lítinn gaum, að heppilegt hefði orðið að láta rannsókn á kjördæmaskipun landsins verða samferða stjórnarskrárbreytingunum. Það var augljóst, að nauðsyn bar til að íhuga kjördæmaskipunina, bæði til þess að minka misrétti það, er henni var orðið samfara, og vegna aukningar kosningarréttarins.

Eg skal nú ekki fara lengra út í þá sálma, en snúa mér að ræðum háttv. þm., sem talað hafa.

Ræður þeirra háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), háttv. þm. Mýr. (J. E.) og háttv. 1. þm. N.-Múl. (B. H.), held eg að óhætt sé að taka, allar í einu; innihaldið var ekki sérlega mikið og nokkurn veginn alveg samskonar í þeim öllum. Aðalstuðnings sínu máli leituðu þessir háttv. þm. í því, að fjöldi þingmanna væri búsettir í Reykjavík. En mér liggur nú við að spyrja þessa háttv. þm., hvaða trygging sé fyrir því, að svo verði alt af, þótt svo sé nú. Eg tel það alóvíst. Og mér er nær að halda, að kjósendur út um land hugsi sem svo, ef fjölgað verður þingmönnum í Reykjavík, að hollast sé að taka þingmenn innan hvers kjördæmis. En sleppum þessu. Ef athuguð er þessi röksemdaleiðsla þessara háttv. þm., er segja, að fjöldi þingmanna, sem heima á í Reykjavík, sé nægileg ástæða til að daufheyrast eða skella skolleyrum við réttmætum kröfum Reykvíkinga, hlýtur öllum að verða ljóst, við hve veik rök hún styðst. Setjum nú svo, að allmargir þingmenn, búsettir í Árnessýslu t. d., en fáir úr Reykjavík, næði kosningu, þá ætti Árnesingar samkvæmt kenningum þessara háttv. þm. að missa annan eða jafnvel báða þá þingmenn, sem þeir hafa. Þetta hljóta allir háttv. þm. að skilja, og því verð eg að segja það, að mig furðar á því, að nokkur þm. skuli halda þessari ástæðu fram, og það meira að segja sem meginástæðu.

Það atriði, að ekki megi fjölga þingmönnum hér í Reykjavík vegna hlunninda þeirra, sem bærinn nýtur umfram aðra hluta landsins, nær ekki nokkurri átt.

Jafn-fánýt er sú ástæða, að til Reykjavíkur flytjist svo margir kjósendur utan af landinu, og sé ekki vert, að þeir hafi jafnmikinn rétt öðrum. Slíkar ástæður sem þessi sýna, að málstað þessarra þingmanna er alls ekki bót mælandi, og er fremur fylgt af vilja en mætti.

Það hefir verið mikið um það talað af sparnaðarmönnum, ekki sízt háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), að þessi fjölgun yki útgjöld landssjóðs. Eg get nú ekki séð, að sá kostnaðarauki færi fram úr svo sem 500 kr., þótt fjölgað yrði um tvo þingmönnum hér hér í Reykjavík, og tel eg ekki í það horfandi. Mér þykir undarlegt, ef þingmenn vilja ekki meta gagnið af sjálfum sér svo mikils, að það þó nemi þessari upphæð. Þetta er svo lítilfjörleg upphæð, að undarlegt er að heyra þingmenn bera hana fyrir sig í fullri alvöru. Það mætti heldur ætla hitt, að upphæðin hafi sezt eitthvað óþægilega í höfuðið á háttv. þm., svo að þeim finnist þeir vera að bjarga landinu frá miklum fjárhagslegum voða.

Í þessu sambandi hefir einnig verið minst á bitlinga. Eg álít, að þingmenn ætti sem minst að tala um bitlinga, og þá þó því að eins, að þeir hafi gert sér grein fyrir því, hvað bitlingur er, en kalla ekki nauðsynlegar fjárgreiðslur því nafni.

En svo að eg komi sem næst efninu, þá tel eg æskilegast, að br.till. á þgskj. 449 nái fram að ganga, þótt sumum kunni að þykja hún óþægileg fyrir sig og sína nánustu, þá er hún þó réttmæt. En af því að eg hefi litlar vonir um, að hún muni ná fram að ganga, þá mun eg greiða atkvæði með breyt.till. á þgskj. 451, og hefi eg fulla ástæðu til að ætla, að þeir, sem snerust móti tillögum mínum við 2. umr., hafi síðan komist að réttri niðurstöðu um það, að þær voru bygðar á réttum grundvelli, og vilji nú bæta úr öfugspori meiri hluta nefndarinnar og atkvæðagreiðslunni við síðustu umræðu.