13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

39. mál, sala á jörðinni Núpi í Öxarfirði

Ráðherra (H. H.):

Mér virðist svo, sem ýmsir þeirra háttv. þm., sem talað hafa, líti svo á, sem þjóðjarðasalan hafi fyrst hafist 1905, og síðan farið vagandi. En því fer fjarri. Fyrir þann tíma vóru sífelt seldar fleiri eða færri jarðir á hverju þingi eftir sérstökum lögum, og stundum jafnvel fult eina mikið eins og átt hefir sér stað sum árin síðan 1905. Munurinn er einungis sá, að þá vóru í eitt skifti fyrir öll gefin heimildarlög til sölu á þessum jörðum undir vissum nánar tilteknum kringumstæðum og með ákveðnum skilyrðum til þess að ekki þyrfti að setja lög um heimild til þjóðjarðasölu á hverju einasta þingi. Og ástæðan til þessa var bæði sú, að þinginu þóttu vera mislagðar hendur í því, að ákveða verð jarðanna: þar vildi verða ofmikið ósamræmi, og ofhætt við ýmsum misbrestum; og auk þess var þetta alt ofmikill tímaþjófur. Þingið hafði ekki tíma til að rannsaka öll skjöl og skilríki viðvíkjandi öllum þeim jörðum, sem um var beðið í hvert sinn, og sem stundum vóru alt að 30–40 að tölu og mátti ekki missa allan þann mikla tíma, sem gekk í umræður um verðið á hverri einstakri jörð, kostum hennar og kynjum. Í lögunum um sölu þjóðjarða frá 1905 var því um enga stefnubreyting að ræða, heldur aðeins hagkvæmari tilhögun. Það hefir verið og er enn álit margra, og það víst mikils meiri hluta þings, að það sé nauðsynlegt vegna ræktunar landsins, að gefa sem flestum kost á því, að eignast sjálfir ábýlisjörð sína.

En hins vegar get eg lýst yfir því, að eg er samþykkur þeim hv. þingmönnum, er talað hafa á móti þessu frumv., eins og það liggur fyrir. Eg álít, eins og þeir, að það sé óheppilegt, að þingið fari, að lítt könnuðu máli, að grípa fram fyrir hendur sýslunefndanna, sem jafnan hafa verið í ráðum hafðar um sölu þjóðjarða, eins fyrir árið 1905 eins og síðan, því að það eru engar líkur til þess, að þingið sé færara en þær að dæma um það, hvort heppilegt sé að farga einstökum jörðum, sem sýslunefndir auðvitað eru miklu kunnugri, en meginþorri þingsins. Þess vegna er eg á móti þessu frumvarpi, og vona að það verði felt.