06.08.1914
Neðri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

39. mál, sala á jörðinni Núpi í Öxarfirði

Pétur Jónsson:

Eg hefi engu við það að bæta, sem eg sagði áðan. Ástæður mínar haggast í engu við það, þótt ekki þyrfti að nota þessa jörð fyrir læknissetur. En eg skal benda mönnum á, hvers vegna þessi jörð ekki var gerð að læknissetri. Það var vegna þess, að ábúandi tekst ekki til að leyfa það, að læknisbústaður væri reistur á jörðinni, þótt honum hefði verið það meinfangalaust, þar sem bæði var nóg pláss og hann barnlaus maður og kominn á efri ár. Þó að nú sé læknissetur á Kópaskeri og menn hafi unnið það til að reisa þar læknishús, þá er eg helzt á því, ef Núpur losnar úr ábúð, að læknirinn vildi setjast þar að, vegna þess, að hann er þar miklu betur settur en á Kópaskeri, þar sem ekki eru einusinni hagar fyrir hesta, enda væri hann þá nær miðju læknisdæmis. Þetta þyrfti heldur ekki að vera neinum örðugleikum bundið vegna þess, að læknishúsið, sem nú er, stendur á verzlunarstað, og yrði því að líkindum auðselt.

Viðvíkjandi hinni ástæðu háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) að heppilegt sé að selja jörðina, vegna þess að hreppsmenn þurfi að koma sér upp heyforðabúri og fá slægjur þarna, þá sé eg ekki betur, en að það sé alhægt, þótt jörðin sé landasjóðseign áfram. Slægjurnar eru þarna svo miklar, að ábúandi hefir ekki komist yfir að nota þær til fulls, og hefir venjulega sótt um leyfi hjá mér, sem umboðsmanni, til þess að mega ljá þær út. Og eg er þess fullviss, að honum verður heimilað engu síður að ljá slægjur hreppnum en einstökum mönnum, nema fremur sé, hvort sem eg eða aðrir verða umboðsmenn. Þar að auki væri það stórum betra, að hreppurinn fengi þessi hlunnindi föst til frambúðar og því væri hægt að koma í kring, ef jörðin yrði gerð að læknissetri.